152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við höfum þá hækkað núna á sex mánuðum, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, þessar bætur, um 8,6% frá áramótum, 5,6% plús 3%. Þetta eru verulega miklar hækkanir. Þær koma svo sem ekki að öllu leyti til af góðu. Þær koma ekki eingöngu til af þeim vilja og ásetningi ríkisstjórnarinnar að gera enn betur. Að hluta til, og það er bara opinbert, erum við að bregðast við verðbólguþróun. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við náum líka saman um aðgerðir til að bregðast við verðbólguþróuninni og ná tökum á verðþróun í landinu. Við getum lengi rætt um að það eru einstaklingar í landinu sem eiga erfitt og margir þurfa að þiggja aðstoð, fá jafnvel matargjafir. En ef við notum opinber gögn þá segja nýjustu gögnin okkur að staðan hefur aldrei áður verið betri en einmitt í dag, á árinu 2021. Það er lífskjararannsókn Hagstofunnar, hún segir að þessir hópar sem hv. þingmaður berst fyrir, og ég virði það, hafi aldrei verið jafn fámennir íslensku samfélagi og núna.