152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum almannatrygginga, mótvægi vegna verðbólgu. Hæstv. fjármálaráðherra spurði hér áðan: Af hverju farið þið ekki inn á reiknivél TR og reiknið þetta? Til hvers ætti ég að fara inn á þessa reiknivél og reikna þetta? Ég lifði í þessu kerfi og ég get upplýst að ég fer reglulega inn á þessa reiknivél og reikna. Það er alveg sama hversu oft ég fer þarna inn og hversu mikið ég reikna, þeir verst settu hafa það jafn slæmt, hversu oft sem ég reikna þetta.

Hæstv. ráðherra talar um kaupmátt lífeyrisþega eins og það sé einhver allsherjarlausn. Það er það ekki. Við vitum, og ég hef aldrei neitað því, að það er hópur innan þessa kerfis sem hefur það gott. Það er frábært og við eigum að fagna því. En við eigum ekki að nota þann hóp til að lemja á þeim sem hafa það ekki gott. Það er röng uppsetning að reyna að sannfæra fólk um að þeir sem fá útborgaðar 219.000 kr. á mánuði — það var talan sem viðkomandi sýndi okkur hjá Öryrkjabandalaginu í gær og það sem sló mig mest var það hvar viðkomandi kona bjó. Hún bjó í hjólhýsi og þar af leiðandi fékk hún ekki heimilisuppbót af því hún hafði ekki fasta heimilissetu. Hugsið ykkur, hún hafði ekki ráð á að leigja á markaði og fékk ekki félagslegt húsnæði. Henni var refsað, ekki bara fyrir að detta út af þessu heldur var henni líka refsað þannig að kerfið sagði við hana: Þó að þú sért ein og ættir rétt á húsaleigubótum færðu þær ekki vegna þess að þú hefur ekki heimilisfang. Við erum að rekast á þetta út um allt kerfið. Því miður eru þetta bara staðreyndir.

Við verðum líka að horfa á það þegar hæstv. ráðherra segir að það hafi verið 8,6% hækkun í heildina þegar þetta kemur inn. Hann verður að taka tillit til hvaðan við erum að koma. Við erum að koma út úr Covid-tímabili þar sem hefur þrengt gífurlega að þessum hópi, og sérstaklega þeim verst settu. Eldri borgarar fengu ekki krónu í aðstoð á öllu Covid-tímabilinu, hvort sem þeir höfðu það gott eða ekki, og þeir reyndu ekki einu sinni að hjálpa þeim sem höfðu það verst í því kerfi. Hverjir eru verst settir þar? Jú, það eru konur af því að þær hafa mun lægri lífeyri.

Það er af nógu að taka en það fólk sem við erum að ræða um er fólk sem getur ekki veitt sér nein lífsgæði. Því dettur t.d. ekki í hug að fara í leikhús. En það sem er kannski sárara er að það hefur ekki einu sinni efni á því að fara til sjúkraþjálfara lengur eða til geðlæknis eða sálfræðings. Það hefur ekki efni á því. Það er svo dýrt. Í dag eru, eins og við vitum, nærri 200 einstaklingar á Íslandi undir 67 ára nauðungarvistaðir á elliheimilum. Við erum að tala um kostnað, tölu. Við verðum að átta okkur á því að þetta bútasaumaða kerfi sem við erum búin að búa til veldur fólki gífurlegum erfiðleikum vegna þess að það getur ekki á nokkurn hátt áttað sig á því, þegar það fær einhvers staðar tekjur, hvar það skilar sér.

Nú erum við að setja inn í þennan skala tekjur og reyna að koma í veg fyrir að þær fari keðjuverkandi í skerðingar úti um allt kerfið. En það er alveg á hreinu að við komum aldrei í veg fyrir það nema á einn hátt og það er með því að koma með skatta- og skerðingarlausar tekjur, þannig að þær séu ekki skattskyldar, fari ekki inn á reikning viðkomandi sem skattskyldar tekjur. Við sjáum t.d. að einstaklingar með skerta starfsgetu fá ekki nema 109.000 kr. frítekjumark á atvinnutekjur á sama tíma og eldri borgarar eru með 200.000 kr. Bara svona óréttlæti sýnir hvað við erum að gera. Við erum komin með aukagjald hjá sérgreinalæknum sem nú er almennt 1.500–2.000 kr. Aukagjald hjá sjúkraþjálfurum var 500–1.000 kr. en er nú komið í 1.500 kr. Ef við skoðum bara einstakling sem þarf sjúkraþjálfun tvisvar í viku þá er það aukagjald upp á 3.000 kr., eða 12.000 kr. á mánuði. Setjum það í samhengi við þessar 5.000 kr. eftir skatta sem er hækkunin hérna. Setjum það líka í samhengi við 17.000 kr. leiguhækkunina og setjum það í samhengi við það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um 8,6%. Það eru bara smáaurar. Það er allt farið. Hvað á þetta fólk að gera? Þessi aukakostnaður leggst þungt á alla sem þurfa á þjónustu að halda og þá helst fatlaða, langveika og einnig láglaunafólk.

Kostnaður fer auðvitað hækkandi eftir því sem þjónustan er notuð meira hjá sjúkraþjálfurum og því borga þeir veikari mun meira en þeir sem þurfa á minni þjónustu að halda. Veikt fólk hefur dregið úr því að nýta sér þjónustuna og stór hópur neitar sér um hana. Það á eftir að valda stórskaða á heilsu þeirra og þá einnig aukaálagi á heilbrigðiskerfið, það kostar innlögn á spítala. Einstaklingur sagði við mig: Ég hef ekki efni á sjúkraþjálfun lengur. Það hafði þær afleiðingar að hann gat ekki lengur stundað hlutavinnuna. Og hvaða afleiðingar haldið þið að það hafi haft? Jú, hann fer inn á dýrasta úrræðið sem hægt er, hann fer á sjúkrahús. Þetta á ekki að eiga sér stað. Þetta heitir að spara aurana og henda krónunni. Í þessum ljóta leik er fjárhagslegu ofbeldi beitt með því að sparka í veikt fólk. Það verður fyrir andlegu og líkamlegu tjóni í viðurvist fjölskyldu sinnar og jafnvel ungra barna.

Fátækt fólk á aldrei að þurfa að bíða eftir réttlætinu en sumir bíða allt sitt líf eftir því og fá það aldrei. Ríkisstjórnin er núna í stöðu til að geta leiðrétt þetta viðvarandi ranglæti. Þið eruð að skammta öryrkjum kjör sem duga ekki á nokkurn hátt þeim til framfærslu og dæmið þá því til sárafátæktar. Einstaklingur sem þarf að velja á milli þess hvort hann sleppir að eiga mat eða kaupa lyf fyrir sig eða jafnvel börnin sín er ykkur til háborinnar skammar, að veikt fólk hafi ekki efni á sjúkraþjálfun eða sálfræðiþjónustu, sem hugsanlega gæti aukið lífsgæði þess og jafnvel gert það vinnufært, er fáránleg sóun á lífsgæðum þess og fjármunum ríkisins. Veikt fólk sem á hvorki til hnífs og skeiðar og getur ekki stundað vinnu til að auka lífsgæði sín og barna sinna og ekki keypt sér lífsnauðsynleg lyf, á þeim eru mannréttindi gróflega brotin.

Þá er nú fram undan skerðingar- og skelfingardagurinn mikli hjá TR. Allar skattskyldar tekjur skerða jú framfærslu öryrkjans. Öryrkinn verður skuldugri við ríkissjóð og þarf að nota hluta teknanna til að greiða skuldirnar í TR. Andleg og líkamleg heilsa veiks fólks og lífeyrislaunaþega hefur versnað stórlega. Skuldir hafa stóraukist og áhyggjur og kvíði komin í hæstu hæðir. Eftir keðjuverkandi skerðingar og skatta standa bara eftir 20% af launum fyrir vinnu ef viðkomandi er heppinn eins og kom fram á ráðstefnu Öryrkjabandalagsins í gær. Þetta jafngildir yfir 80% skatti. Setjum það í samhengi við það að við erum með hátekjuskatt upp á 47%. Hver vill borga 80% skatt í formi skatta og skerðinga og jafnvel meira? Það kom fram að fólk getur jafnvel lent í þeirri aðstöðu að fara yfir 100%, þeir sem eru verst staddir og geta ekki reiknað út fyrir fram hvort það borgar sig fyrir þá að taka þennan styrk eða fá þessar tekjur. Það getur verið mjög slæmt þegar viðkomandi er kannski að taka við 20.000 kr. í einhverjum styrk og endar kannski í 23.000 kr. skerðingu. Það segir sig sjálft að það er eitthvað að kerfi sem getur boðið upp á þann veruleika.

Atvinnuleysisbætur, lágmarkslaun og listamannalaun eru hærri en örorkugreiðslur og það er flott. Atvinnuleysisbætur eru ekkert til að hrópa húrra yfir, lágmarkslaun ekki heldur en samt eru lægstu örorkulaun komin 100.000 kr. undir lágmarkslaun fyrir utan þær skattgreiðslur sem þeir sem lifa í fátækt og sárafátækt þurfa að greiða. Fæstir þurfa að vinna á lágmarkslaunum til lengri tíma. Það er ekki sama sagan með örorkugreiðslur sem eru mun lægri og munurinn eykst alltaf. Ísland á pottþétt heimsmet í skerðingum á greiðslum til öryrkja. Já, pottþétt heimsmet í skerðingum. Maður hefur reynt að útskýra þessar skerðingar fyrir kollegum á Norðurlöndunum og það er gjörsamlega vonlaust að koma þeim í skilning um það hvað er í gangi. Öll framboð lofuðu því fyrir síðustu kosningar að breyta þessu kerfi. Það kom skýrt fram hjá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í gær að það er vilji til að breyta þessu kerfi í haust. En það kom líka fram, og hefur að hluta til komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að þegar breyta á þessu kerfi í haust á að breyta skerðingunum en það á ekki að setja neina peninga inn í þetta kerfi.

Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra var spurður sérstaklega að því í gær hvort grunnframfærsla yrði hækkuð, hvort einhver hækkun yrði inni í þessari endurskoðun. Nei, það verður ekki hækkun en það verður dregið úr skerðingum og þeir sem hafa orðið fyrir mestum skerðingum gætu fengið einhverja hækkun. Spáið í hversu rangt þetta er. Af hverju í ósköpunum, ef við erum að endurskoða svona kerfi, byrjum við ekki á því að reikna út hver er lágmarksframfærsla einstaklings eða rétt framfærsla til að lifa mannsæmandi lífi? Hæstv. fjármálaráðherra gæti kannski upplýst okkur um það hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og líka hans ríkisstjórn, hefur ekki farið út í þá vinnu. Ég geri mér fulla grein fyrir hvers vegna það er. Það er vegna þess að sú tala yrði a.m.k. 100.000 kr. eða jafnvel 200.000 kr. hærri en sú tala sem verið er að borga í dag. Þá vantar líka inn í að taka á persónuafslættinum. Ég get ekki skilið þá afstöðu að þeir sem eru að fá 220.000 kr., undir því m.a.s., útborgaðar séu að borga 30.000 kr. í skatt. Það fer að vísu í útsvar. Hæstv. ráðherra myndi verða fljótur að segja að þetta færi í útsvar en það skiptir ekki máli, útsvar eða skattur til ríkisins eða sveitarfélaga, þetta er bara skattur í augum þessa fólks. Þetta er fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar. Ég hef spurt marga þessa einstaklinga að því hvort þeir myndu frekar stoltir vilja greiða skatta eða fá þessar greiðslur. Það hefur nefnilega verið sagt að það verði að láta þetta fólk borga skatta vegna þess að það sé niðurlægjandi að borga ekki skatta. Það er það ekki. Herra forseti, ég segi strax: Ég myndi vilja fá þessar greiðslur. Mér er alveg sama um það hvort ég þarf að borga skatta eða ekki. Ef ég fengi þessa peninga myndi það hjálpa mér strax. Það er eitthvað alvarlegt að því kerfi að við skulum vera með þá stöðu að skattleggja þá sem hafa ekki á nokkurn hátt möguleika á því að framfleyta sér.

Það þarf að stokka þetta kerfi algerlega upp. Því miður er ég mest hræddur um að ef á að stokka þetta kerfi upp eingöngu á þeim forsendum sem núverandi ríkisstjórn ætlar að gera, með því að setja ekkert inn í kerfið, ekki neitt, heldur eingöngu taka á skerðingunum, þá muni það hjálpa ákveðnum hópi en það mun líka valda því að stór hópur mun áfram þurfa að lifa við þær aðstæður að eiga ekki til hnífs og skeiðar. Við erum líka með þennan hóp sem við megum ekki gleyma, sem er sá verst setti af þeim verst settu, sem varð fyrir búsetuskerðingunum, sem er ekki búið að leiðrétta, hefur verið haldið í gíslingu í 13 ár, hefur verið í gíslingu fyrir dómstólum í sex ár. Þetta fólk stendur svo illa að maður getur ekki einu sinni ímyndað sér hvernig staðan er hjá því frá degi til dags. En ríkisstjórnin sýnir það svart á hvítu að hún ætlar ekki að leiðrétta aftur í tímann, þvert á móti, hún ætlar bara að leiðrétta þetta um fjögur ár. Það sýnir hvers lags fjárhagslegu ofbeldi verið er að beita þetta fólk. Svo má líka nefna að þegar ríkisstjórnin leyfði þeim að taka út séreignarsparnaðinn en gleymdi að segja hvar haka ætti við á skattskýrslunni og rændi öllum séreignarsparnaðinum aftur af fólkinu og það er í baráttu við að reyna að ná þeim sparnaði til baka en fær það ekki. Þetta sýnir bara að ríkisstjórnin er ekki að hugsa um (Forseti hringir.) þennan hóp. Þetta er hópurinn sem er með breiðu bökin. Þetta er hópurinn sem ríkisstjórnin ber á og beitir fjárhagslegu ofbeldi án þess að hika.