152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað má segja um þá sem hafa lítið milli handanna að þetta sé ekki nógu gott og að við verðum að gera betur. Sérstaklega á það við um hópa sem eiga erfitt með að bjarga sér sjálfir eða geta það yfir höfuð ekki. Verst er kannski þegar þeir geta bjargað sér sjálfir en kerfin eru því miður smíðuð þannig að teknir eru af allir hvatar til að gera það. En öllum þessum stóru orðum verða að fylgja raunhæfar tillögur. Til þess að geta risið undir því sem hv. þingmaður er í raun og veru að kalla eftir, sem er skattleysi tekna upp í 300.000–350.000 kr. og bótagreiðslur sem eru langt umfram það sem við erum að ræða hér að kerfið okkar bjóði upp á, myndi þurfa að kosta til alveg gríðarlegum fjárhæðum. Ég ætla ekki einu sinni að fara út í það hversu slæmt það væri bara í ríkisfjármálalegu samhengi heldur bara benda á að við notum þegar 10% af heildartekjum ríkisins í þennan málaflokk og þær hugmyndir sem eru reifaðar, sem er auðvelt að setja fram, myndu örugglega kosta hátt í aðra 100 milljarða á ári um alla framtíð, á útgjaldahliðinni. Svo geta menn deilt um það hversu mikið myndi skila sér aftur í gegnum hagkerfið og hver endanlegur nettókostnaður ríkisins yrði en við erum að tala um svona fjárhæðir. Það er bara svo að ekkert ríki í heiminum er með svo örlátt stuðningskerfi fyrir öryrkja, eða annars staðar í almannatryggingum, að menn séu almennt betur settir en þeir sem mæta í vinnuna frá morgni til kvölds.