152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Ég svaraði honum alveg skýrt. Ef við tækjum okkur saman og myndum tryggja að viðkomandi hefði 300.000–350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust þá erum við í Flokki fólksins með lausn á því. Við getum t.d. skattað inngreiðslur í lífeyrissjóði. Við getum breytt persónuafsláttakerfinu þannig að þeir hæstu væru ekki að fá persónuafslátt. Við getum breytt þessu kerfi og ávinningurinn yrði frábær. Hugsið ykkur bara ávinninginn af því að fólk geti lifað með reisn, að fólk geti farið til læknis ef það þarf á því að halda, að fólk geti farið í sjúkraþjálfun. Þið eruð að tala um að breyta kerfinu og reyna að fá fólk til að vinna. Hjá Öryrkjabandalaginu í gær var sett fram tölfræði. Kona kom upp og sýndi svart á hvítu að hún reyndi að vinna, hún vann og vann, hún var búin að vinna í tvö ár. Vitið þið hverjar endurgreiðslurnar sem krafist var af Tryggingastofnun voru? 1.300.000 kr. Þegar hún fór að reikna dæmið til enda þá komst hún að því að með kostnaði við að fara í vinnuna og vinna var hún komin í tap. Þetta borgar sig ekki.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig í ósköpunum getið þið haft svona kerfi, hvernig í ósköpunum getið þið varið svona kerfi og hvers vegna í ósköpunum breytið þið þessu ekki?