Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[17:03]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er fjallað um mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu sem munu kosta ríkissjóð um 5 milljarða kr. á þessu ári. Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem nú er verið að afgreiða úr hv. fjárlaganefnd, er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á fjárheimildum þrátt fyrir mun erfiðara ástand en blasti við þegar fjárlög voru samþykkt fyrir áramót. Mótvægisaðgerðirnar á að fjármagna úr varasjóðum, segir í því frumvarpi sem við ræðum núna, enda stóð ekki til að gera neitt. Hvergi var að finna þingmál tengd efnahagsástandinu á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar langt fram eftir vori þrátt fyrir ítrekað ákall um aðgerðir, m.a. frá okkur í Samfylkingunni. Við það sat þar til rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar þegar verðbólga var orðin 7,2%. Eftir hálft ár af hárri verðbólgu birtust svokallaðar sértækar aðgerðir á borði hæstv. ríkisstjórnar og nú er þetta forgangsmál og þykir, að mati hæstv. fjármálaráðherra, koma snemma. Í byrjun viku bárust svo fréttir um áframhaldandi þenslu á húsnæðismarkaði enn eitt árið þar sem markaður með heimili fólks hækkar um tugi prósenta á ársgrundvelli.

Betra seint en aldrei og betra er nokkuð en ekki neitt, segi ég um þessar aðgerðir, en viðbrögðin eru vonbrigði að mínu mati þó að ég fagni því vissulega að stjórnvöld viðurkenni þó a.m.k. loks vandann. Nágrannalönd okkar hafa kynnt hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum en við sjáum raungerast sama seinagang og fyrir tveimur árum í heimsfaraldri. Verðbólgan er afleiðing af efnahagsaðgerðum stjórnvalda sem lögðu höfuðáherslu á að veita stuðning með almennum hætti fyrir tilstilli peningastefnunnar í stað þess að grípa hratt og örugglega inn í með sértækum aðgerðum á tímum heimsfaraldurs. Sama ríkisstjórn er nú að skera niður um 2 milljarða kr. í almenna íbúðakerfinu, opinbera húsnæðiskerfinu, samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun. Þetta er gert þrátt fyrir að húsnæðisliðurinn sé aðalástæðan fyrir verðbólgunni og þrátt fyrir vilyrði hæstv. iðnviðaráðherra um stórtæka opinbera uppbyggingu á næstu árum. Hver svo sem niðurstaða umrædds húsnæðishóps, sem hæstv. fjármálaráðherra vitnaði til hér áðan, er þá er ekkert fjármagn fyrir þeim aðgerðum í núverandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Annaðhvort er ekkert að marka þau vilyrði eða hæstv. innviðaráðherra hefur einfaldlega takmarkað svigrúm í efnahagsstefnu sem stýrt er af einum flokki.

Virðulegi forseti. Það er erfitt að grípa til réttra og vel tímasettra aðgerða í efnahagsmálum þegar efnahagsstefnan er óljós og tilviljunarkennd. Þess vegna förum við úr niðurskurði í húsnæðismálum í smáviðbót í húsnæðisbótum þegar á gefur. Þess vegna er talað um þenslu en samt er ítrekað ráðist í aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem ýta undir þenslu hjá tekjuhæstu einstaklingunum í landinu. Ríkisstjórnin stundar hægri pólitík í fjármálum þar sem hæstv. fjármálaráðherra leggur áherslu á eignasölu og skattalækkanir eftir fremsta megni, en leiðréttir hana af og til með félagshyggjuáherslum þegar almenningi er ofboðið. Grunnstefnunni er stýrt af Sjálfstæðisflokknum en Vinstri græn plástra hana inn á milli svo að ásýndin sleppi fyrir horn um stundarsakir. Framsókn flýtur síðan með í anda samvinnu. Þessi tilviljunarkennda stefna kostar okkur gríðarlega peninga því að engin samfella er í því hvernig efnahagsmálunum í landinu er stýrt. Of langan tíma tekur að bregðast við þegar upp kemur ástand sem krefst skjótra viðbragða af hálfu stjórnvalda, hvort sem er heimsfaraldur eða verðbólga, tækifæri tapast, þrýstingur eykst og óánægja vex sem getur leitt af sér yfirskot í launakröfum og kostnað síðar meir. Þegar þetta bætist við þá vanfjárfestingu sem hefur átt sér stað í velferðarkerfi okkar undanfarinn áratug, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í samvinnu við Framsókn sem Vinstri græn hafa í seinni tíð kvittað upp á, er erfitt að sjá að hægt verði að stemma stigu við ósjálfbærni í ríkisrekstri. Tekjuhliðin er brostin og tregða til að grípa til alvöruaðgerða til að leiðrétta skekkju í velferðarkerfi okkar eftir niðurskurð skapar þrýsting á að ráðast í skammtímaúrræði sem eru gífurlega dýr.

Endurfjárfesta þarf í velferðarkerfi okkar, virðulegi forseti, og koma í veg fyrir svona verðbólguspíral eins og nú blasir við með alvöruvelferðarstjórn. En vandinn er sá að grafið hefur verið undan getu hins opinbera til að halda velferðarkerfinu gangandi. Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verða þær lægstu á öldinni í lok þessa kjörtímabils, samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Tölurnar tala sínu máli. Tugir milljarða hafa markvisst verið teknir út úr tekjugrunni ríkissjóðs undanfarin ár á meðvitaðan hátt án þess að nýjar tekjur komi á móti. Þetta eru ekki skoðanir minni hluta, þetta eru staðreyndir sem m.a. birtast í áliti fjármálaráðs þar sem einfaldlega er farið yfir þá 30–40 milljarða kr. sem teknir hafa verið út úr rekstri ríkissjóðs án mótframlaga. Hæstv. ríkisstjórn ber jafnan fyrir sig að stjórnvöld séu að lenda í kostnaði eða lenda í verðbólgu, að ytri þættir stýri flestu. Viðbrögðin eru þau að setja ríkissjóð í enn þrengri spennitreyju til að ýfa upp óánægju meðal þeirra sem starfa í velferðarkerfi okkar og meðal þeirra sem nýta þjónustuna. Það er gert til að mæta kröfum þeirra sem raunverulega stjórna um tekjuaðhald gagnvart ríkissjóði. Vítahringurinn magnast og enginn skilur hvers vegna óánægja eykst og kerfin verða brothættari, enda segir hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin stundi skynsamlega hagstjórn og undir það taka formenn annarra stjórnarflokka gagnrýnislaust.

Hér axlar enginn raunverulega ábyrgð, ekkert uppbrot, engin kjarkur til að hafa raunveruleg áhrif á grunnvandann, aðeins stefna um að halda ríkissjóði í skefjum og minnka hlut ríkissjóðs og það af hálfu flokks með fimmtungsfylgi í dag. Hinir flokkarnir reyna að bjarga málunum af og til með skyndilausnum. Merkilegast er að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn talar um mótvægisaðgerðirnar sem við fjöllum um núna, aðgerðir sem voru kynntar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sem sértækar aðgerðir sem hafa þó ekki verið fjármagnaðar en sagt er að eigi að fjármagna með varasjóðum sem geta hæglega tæmst hratt í núverandi verðbólguumhverfi. Við vorum síðast í morgun, hv. fjárlaganefnd, að ræða við fjármálaráðherra þar sem fram kom að stór hluti af ástæðunni fyrir því að núverandi fjármálaáætlun og fjárlög halda er það að verið er að nota verðbólgufroðu á tekjuhliðinni. Það er því engan veginn hægt að gera ráð fyrir því að þessir varasjóðir muni nægja fyrir þessum svokölluðu sértæku aðgerðum. En staðreyndin er sú að stærstur hluti þess pakka sem hér er verið að fjalla um í dag snýr að því að bæta örorku- og ellilífeyrisþegum upp verðbólguna. Það er bundið í lög að verja eigi þennan hóp fyrir verðbólgu. Það stendur skýrum stöfum í 69. gr. laga um almannatryggingar að tryggja eigi að upphæðir í almannatryggingakerfinu fylgi launaþróun eða verðbólgu ef hún er hærri. Og þeir útreikningar sem hér fóru fram áðan af hæstv. fjármálaráðherra, sem var stoltur yfir því að þessi 3% væru að bæta upp fyrir verðbólguna — staðreyndin er sú að þessi 3% viðbót seinni sex mánuði ársins plús þessi umræddu 5,6% sem komu um áramótin koma okkur á þann stað að hækkunin fyrir þennan hóp, sem getur ekki farið í verkfall og barist fyrir réttindum sínum heldur er háður því að stjórnvöld fylgi lögum, er 7,1% á árinu. Og hvað sagði Seðlabankinn um daginn varðandi verðbólguspá fyrir árið? Jú, hún er 7,4%, það er bara verið að fylgja lögum og það er ekkert sértækt eða fréttnæmt við það að fara að lögum og virða réttindi fólks í velferðarsamfélagi nema kannski í ríkisstjórn þar sem hægri slagsíðan í efnahagsmálum er svo mikil að það þarf vinstri flokk til þess eins að passa að grunnforsendur velferðarkerfisins okkar séu virtar, að það sé raunverulega farið að lögum. En það tók reyndar hálft ár að þrýsta á um þetta. Svo birtist þetta svona í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Virðulegi forseti. Markmið stjórnvalda er ekki að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er ekki markmiðið eins og nú heyrist svo víða þvert á ríkisstjórnarflokkana. Þetta eru þau öll sammála um, virðist vera, að sé markmið stjórnvalda. Markmið stjórnvalda er að þjónusta íbúa landsins og vernda samfélagið. Hvernig við náum því markmiði, með hætti sem er sjálfbær og stuðlar að efnahagslegu jafnvægi, snýr síðan að tækjum og tólum sem við beitum, vaxtastigi, gjöldum, skattlagningu, tekjuhliðinni sem er algerlega brostin. Það þarf að beita þeim tækjum og tólum sem til eru til að ná höfuðmarkmiði stjórnvalda um að þjónusta almenning og byggja þannig grunninn sem allt vex á, m.a. einkageirinn sem hæstv. fjármálaráðherra verður svo tíðrætt um að standi fyrir verðmætasköpun í samfélaginu. Kerfið virkar nefnilega í báðar áttir og sú kredda sem nú stýrir efnahagsmálunum, og hefur sett efnahagsstefnuna í baklás aðgerðaleysis, mun því ekki aðeins bitna á velferð fólks heldur líka á umræddri tekjusköpun í samfélaginu sem alltaf er verið að tala um, í einkageiranum sem vissulega er gríðarlega mikilvægur. Þetta er vítahringurinn sem ríkisreksturinn er kominn í og verður að rjúfa.

Virðulegi forseti. Þessar mótvægisaðgerðir eru nauðsynlegar þó að þær séu ekki nægjanlegar. En þörfin á aðgerðum af þessu tagi mun aðeins aukast í núverandi stjórnarfari því að ekkert bendir til þess að takast eigi á við grunnvandann í ríkisrekstrinum. Þetta kom skýrt fram á fundi fjármálaráðs með hv. fjárlaganefnd í morgun. Þetta kemur skýrt fram í opinberri umsögn fjármálaráðs þar sem liggur fyrir að það er kerfislægur halli á ríkissjóði því búið er að lækka tekjugrunninn sem við getum notað til þess að veita nauðsynlega lögbundna þjónustu. Við erum að horfa upp á brostna tekjuhlið, afskiptaleysi á húsnæðismarkaði og almennt stefnuleysi í efnahagsmálum sem litar allar aðgerðir á velferðarsviðinu. Þetta ástand skapar einmitt þær aðstæður sem nú þrýsta á tilviljanakenndar og kostnaðarsamar aðgerðir. Það er auðvitað lítið annað hægt að gera en að samþykkja og fagna því að eitthvað sé gert, þó lítið sé. En þetta er bara byrjunin ef stjórnarfarið heldur svona áfram.