154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[14:10]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að við grípum til einhverra aðgerða vegna atvinnuhúsnæðis í Grindavík og þá sé kannski sérstaklega horft til þessara minni fyrirtækja. Stóru fyrirtækin í Grindavík hafa ekki lifað nema vegna þess að litlu fyrirtækin voru til, afleiddu störfin sem urðu til af því að stóru fyrirtækin voru til, til þess að þjónusta þessi stóru fyrirtæki, hafa að stórum hluta haldið uppi góðu lífi í Grindavík og fjölbreyttu lífi. Líf í Grindavík væri mjög einhæft ef þessi litlu fyrirtæki hefðu ekki komið til, fyrirtæki sem hafa blómstrað svo vel í kringum sjávarútveginn þarna sem er kannski sá öflugasti á Íslandi. Við í efnahags- og viðskiptanefnd þurfum núna að fara að skoða með hvaða hætti við getum gripið til einhverra þeirra aðgerða sem geta hjálpað þessum fyrirtækjum. Mér finnst nú að meiri hluti nefndarinnar sé að lýsa hér í pontu vilja til þess að fara í slíkar aðgerðir, a.m.k. athugun á því hvort hægt sé að grípa til slíkra aðgerða. Ég ætla að taka því boði með góðum hug og vonast til þess að þegar nefndin kemur saman á nýjan leik eftir kjördæmaviku þá förum við öll í það af fullum krafti að skoða annað það sem við erum ekki að ræða hér í dag. Það er ýmislegt sem þarf að gera upp í Grindavík til að ná utan um allt þar af því að samfélagið er í molum, fólkið er farið og ástandið á fólkinu er ekki gott og við þurfum svo sannarlega að huga að því.