132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík.

[15:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég var einmitt að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að reiða þessar upplýsingar fram. Hann segir að þetta séu eðlileg samskipti, engar hótanir hafi átt sér stað. Auðvitað eru fólgnar í því hótanir þegar sagt er við ríkisstjórn Íslands að fari hún ekki að vilja álrisans komi hugsanlega til þess að álverinu verði lokað. En um hitt vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann mér sammála um það að þetta sé alvarleg áminning til Íslendinga um að verða ekki háðir stórfyrirtækjum, stórum auðhringum eins og Alcan, og stefna ríkisstjórnarinnar gengur reyndar út á? Hér hefur verið talað um rafmagn til stækkunar álversins en það eru aðrir þættir.

Í ágætri grein sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem skipar efsta sætið hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í Hafnarfirði, ritar í Morgunblaðið í dag þá vekur hún athygli á því að það séu ekki einvörðungu þessir þættir sem kunni að koma til álita heldur einnig mengunarþættir. Verður íslensku ríkisstjórninni stillt upp við vegg að því leyti líka?