132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Útgáfa starfsleyfa til stóriðju.

[15:16]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir ákvörðun Landsvirkjunar um að ræða einungis við Alcan um raforkusamninga vegna álversins í Straumsvík. Gangi þær fyrirætlanir eftir verður framleiðslugetan árið 2010, 1.066.000 tonn af áli. Þar með verður aukning árlegrar losunar CO 2 frá árinu 1990 orðin 1,6 millj. tonn og íslenska ákvæðið fullnýtt samkvæmt þeim skilningi sem í það hefur verið lagður fram til þessa.

Nú hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar allt einu boðað þjóðinni nýjan fögnuð. Það á að lesa ákvæðið með öðrum gleraugum. Í ákvæðinu stendur í íslenskri þýðingu: … ákveður að heildarútstreymi koltvíoxíðs á iðnaðarvinnslu skuli ekki fara yfir 1,6 millj. tonna koltvíoxíðs að meðaltali á ári á fyrsta á skuldbindingartímabilinu. Er hæstv. umhverfisráðherra sammála þeim skilningi að hér sé átt við losunarheimildir hvers árs fyrir sig eða er hún sammála nýja skilningnum sem iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa boðað, að það eigi að búa til meðaltal úr öllum árum tímabilsins sem hér um ræðir?

Það er heldur enginn fyrirvari um losunarheimildir í nýja samkomulaginu um álverið á Bakka. Þá hljóta íslensk stjórnvöld að verða að svara þeirri spurningu hver ber ábyrgð á því að útvega losunarheimildir fyrir þeirri loftmengun sem fer fram úr íslenska ákvæðinu ef þessi áform verða að veruleika. Getur það verið að íslensk stjórnvöld hafi skapað sér þá stöðu að Alcoa eigi kröfu á að hefja framleiðslu áls á Bakka án þess að leggja til mengunarkvóta? Ég óska eftir að hæstv. umhverfisráðherra svari þessum spurningum.