132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:15]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist orðið ljóst að hv. stjórnarandstaða sé sammála um að það eigi að taka þessi réttindi af landeigendum. Þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnar í skrif Ólafs Jóhannessonar um þessi málefni, sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið til hlítar, þá hef ég það eftir Karli Axelssyni, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, að Ólafur Jóhannesson hafi staðfest þennan rétt landeigenda og að allir fremstu lögspekingar Íslands á 20. öldinni hafi staðfest þessa skoðun sína á réttindum landeigenda. Dómafordæmi Hæstaréttar eru ótvíræð og ég bið þá hv. þm. Ögmund Jónasson að sýna mér fram á önnur dómafordæmi Hæstaréttar Íslands sem taki þessi réttindi af landeigendum sem skýrt er kveðið á um í lögunum frá 1923, vegna þess að þar er öll hugsanleg notkun á vatni talin upp. Öll hugsanleg notkun á þeim tíma. Séreignarsinnar unnu þetta mál á sínum tíma og dómafordæmin staðfesta það.