136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

[15:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra þetta svar svo langt sem það náði og ég veit að hæstv. ráðherra veit það mætavel að það er mikil ólga í þessum málum, t.d. á Húsavík, Sauðárkróki, í Fjallabyggð og á fleiri stöðum gagnvart þessum fyrirhuguðu breytingum. Ég hefði viljað heyra það frá hæstv. ráðherra hvaða hugmyndir hann hefur í þá veru að eyða þeirri óvissu sem uppi er. Hann nefndi Norðurland sérstaklega í þessu tilliti og því hvet ég hæstv. ráðherra til þess að láta hendur standa fram úr ermum við að endurskoða þessi áform öll sömul þannig að við náum bærilegri sátt um málið. Hins vegar dreg ég ekki dul á að það er nauðsynlegt að grípa til hagræðingaraðgerða. Við höfum öll skilning á því en það er mikilvægt að fólkið á þessum stöðum viti hvað núverandi ríkisstjórn ætlar sér í þessum efnum.