138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það má alveg segja að fyrir sex til átta árum þegar lánafyrirtæki hófu að lána bundið við dagsgengi erlendra miðla hafi það kannski verið ein skýrasta birtingarmyndin á óraunsæi veltiáranna. Nú stöndum við frammi fyrir því að þeir sem gerðu bílalánasamninga standa út af með lán upp á 120 milljarða kr. Það eru bílalánin sem eru mörgum þyngri fjötur um fót en húsnæðislánin af því að, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram og fleiri röktu hérna ágætlega áðan, bankarnir eru með þokkaleg og viðunandi úrræði að mörgu leyti varðandi húsnæðislánin. Hitt er hins vegar óleyst af því að helmingur bílalána er með þessum hætti og ljóst að greiðslujöfnun á þeim og framlenging gerir það að verkum að fólk er að greiða af bílnum löngu eftir afskrift og eðlilegan nýtingartíma hans.

Mestu skiptir núna að eyða þeirri miklu óvissu sem ríkir um bindingu þessara lána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Það varð algjör forsendubrestur gagnvart þessum lánum við gengisfallið sem byrjaði í mars 2008 og lauk í nóvember. Síðan hefur óvissan legið yfir þessum málum. Stjórnvöld hefðu hugsanlega getað fært öll þessi lán yfir í íslenskar krónur á tökugengi framreiknað út frá eðlilegum forsendum og leyst þannig málið allt í heild sinni en það var ekki gert og þess vegna hefur þetta kraumað undir niðri. Núna er mikil óvissa uppi um þessi mál eftir seinni dóm héraðsdóms. Það er gríðarlega mikilvægt að málið fái flýtimeðferð, því sé áfrýjað til Hæstaréttar þannig að hann geti skorið úr um málið og það þannig leyst í eitt skipti fyrir öll.