138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að andvaraleysið sé það alvarlegasta sem við stöndum frammi fyrir, málflutningur ríkisstjórnarflokkanna sem einkennist af andvaraleysi. Ítrekað er okkur sagt að hér horfi allt til betri vegar og ítrekað er því haldið því fram að verið sé að gera góða hluti í atvinnulífinu og atvinnusköpun sé í fullum gangi, á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins gefa ríkisstjórninni falleinkunn í samskiptum og því að standa við gefin loforð. Á meðan svo er virðast ríkisstjórnarflokkarnir trúa því að þeir séu á góðri leið og þeir hlusta ekki. Það er alvarlegt.

Það er alvarlegt þegar framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir í fréttum að það sé löngu kominn tími til að þessi ríkisstjórn hætti að tala og fari að gera eitthvað. Það er alvarlegt þegar miðstjórn ASÍ ályktar ítrekað um að ekki hafi verið staðið við efndir, ekki sé rætt við lífeyrissjóðina um fjármögnun verkefna og viðræðum sem í stöðugleikasáttmálanum var heitið að lyki 1. september, þá yrði búið að kortleggja þetta — það eru sex mánuðir síðan. Það er alvarlegt þegar Samtök atvinnulífsins segja að með aðgerðum sínum dragi ríkisstjórnin úr hagvexti, auki á atvinnuleysi, dragi úr neyslugetu heimilanna og svo má lengi telja. Á nákvæmlega sömu dögum og þetta er sagt og allir þessir aðilar fullyrða að samskiptaleysið sé algert við ríkisstjórn Íslands á þessum vettvangi koma meirihlutaþingmenn hingað upp, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni, og segja (Forseti hringir.) fólki að allt sé í lukkunnar velstandi og sjaldan hafi horft betur í íslensku samfélagi en í dag.