138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst verð ég að segja að ég undraði mig nokkuð á ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem er tiltölulega nýr þingmaður á Alþingi og þarf ekki að axla ábyrgð á gjörðum fyrirrennara sinna. Úti um allan heim eru menn að átta sig á því að þetta stríð var mistök, stór mistök, menn eru að horfast í augu við þá fortíð og fara í gegnum hana. Ég hefði haldið að þingmaðurinn hefði átt, líkt og aðrir, að viðurkenna að hér hefðu menn ekki staðið rétt að málum í stað þess að hlaupa í vörn fyrir aðila, fólk og flokka sem hann bar ekki ábyrgð á á þeim tíma.

Hv. þingmaður sagði að öll atriði þessa máls væru komin fram. Ég hlýt að mótmæla því. Það liggur auðvitað fyrir hverjir tóku ákvörðunina. Það eru tveir menn sem hafa stigið fram og viðurkennt að þeir tóku ákvörðunina einir og óstuddir, en spurningin er öðru fremur sú sem ég hef margoft sagt í þessari umræðu: Hvernig stóð á því að þessir aðilar gátu tekið þessa ákvörðun?

Spurningin er um aðdragandann að ákvörðuninni, ekki það hverjir tóku hana.

Einnig verð ég að nefna í þessu sambandi, af því að hv. þingmaður vitnaði til Eiríks Tómassonar prófessors, að í þessu máli var ekkert samráð haft við utanríkismálanefnd, bara svo eitt dæmi sé tekið.

Vegna þess sem þingmaðurinn sagði um Kósóvó er um allt annað mál að ræða þar. Það var ekkert sem kallaði á skjóta ákvörðun í formi jáyrðis í Írak, varðandi Kósóvó var þar um að ræða íhlutun af mannúðarástæðum. Það var verið að slátra fólki þar daginn út og inn þannig að þar var um að ræða íhlutun af mannúðarástæðum. Íraksmálið er allt annars eðlis, (Forseti hringir.) það kom m.a.s. í ljós þegar upp var staðið að engin gereyðingarvopn fundust í Írak.