138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það getur verið eitt hvort ákvörðunin hafi verið rétt eða röng, skynsamleg eða heimskuleg. Það er umræða sem á við um margar aðrar ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn tekur. Til dæmis geta menn velt fyrir sér hvort það hafi verið skynsamlegt eða heimskulegt að hækka skatta við þær aðstæður sem nú eru o.s.frv.

Rannsókn á því máli sem hér um ræðir snýr að því, eftir að hafa einmitt lesið tillögu hv. þingmanns, hvort þingsköp hafi verið brotin, hvort stjórnarskrá hafi verið brotin, hvort þar til bærir aðilar hafi tekið ákvarðanir með réttum hætti, hvort þeir hafi mátt taka þær ákvarðanir sem þeir gerðu o.s.frv. Þetta snýr að samskiptum framkvæmdarvaldsins við þingið og þess háttar hlutum sem þarna á að skoða.

Rannsóknin getur aldrei verið á því hvort ákvörðunin hafi verið rétt eða röng. Það er ekki það sem á að rannsaka, vænti ég. Það á að rannsaka allt það sem ég taldi upp áðan. Ég innti hv. þingmann alveg sérstaklega eftir því, herra forseti, hvort þingmaðurinn væri með einhverjum hætti ósammála Eiríki Tómassyni, prófessor í lögum, um samskipti hæstv. ráðherranna á þeim tíma (SVÓ: Ég var ekki …) og Alþingis, en það kom ekki svar. Ég hlakka til að heyra útlistanir þingmannsins á því þegar kemur að seinni ræðu.

Það eru þessir þættir sem um er að ræða, ekki sú spurning hvort menn hafi verið ánægðir með, sammála eða telji að þetta hafi verið rétt eða röng ákvörðun. Þess vegna er eðlilegt að ég sem þingmaður á Alþingi Íslendinga árið 2010 velti þeim þáttum upp. Ég benti hv. þingmanni á að ég teldi eðlilegra fyrir okkur alþingismenn að ganga fyrst frá því hvort við ætluðum að setja svona rannsóknarnefndir upp og hvaða lagarammi skyldi vera um slíkar nefndir. Sú umræða er nú og sú vinna á sér stað nú þegar. Ég hefði talið að það væri meiri og betri bragur á því og það eru þá fleiri mál, eins og ég hef nefnt, sem ættu einmitt erindi til slíkrar rannsóknarnefndar. Ég nefndi eitt mál alveg sérstaklega, þ.e. (Forseti hringir.) hið ömurlega og illskeytta Icesave-mál.