139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:16]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál. Að mínu viti er búið að innheimta veggjöld á þeim vegum sem til eru. Þrátt fyrir þessa kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður að finna aðrar leiðir til fjármögnunar vegaframkvæmda og það án veggjalda, a.m.k. á þessum stóru leiðum. Framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng er sjálfsögð, svo fremi sem framkvæmdin er greidd með veggjöldum og svo fremi sem núverandi leið um Víkurskarð sem búið er að setja hundruð milljóna í í gegnum árin verði viðhaldið og haldið opinni fyrir almenning til að fara ef hann vill. Breikkun þjóðvega út frá höfuðborgarsvæðinu, frú forseti, til Borgarness í vestri, austur fyrir Selfoss á Suðurlandi og það sem út af stendur á Reykjanesbrautinni, er brýnust með tilliti til umferðarþunga og slysatíðni. Þær framkvæmdir verða einfaldlega að hafa forgang.

Því miður verður við núverandi efnahagsástand að forgangsraða. Þrátt fyrir að göng eins og Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og mörg fleiri séu mjög brýn að mínu mati þurfa þau samt að fara aftar á listann þegar kemur að forgangsröðun og opinberu fé.

Annað atriði sem er mjög mikilvægt að nái fram að ganga er að flutningar á þungavöru og öðrum varningi sem ekki bráðliggur á ættu að sjálfsögðu að verða á strandferðaskipum eins og var hér um árið, enda er búið að fjárfesta hundruðum milljóna í höfnum úti um allt land, á mjög mörgum stöðum, einmitt í þeim tilgangi að notast við strandferðaskip. Það er enginn kostnaður af því að taka þetta upp á ný og ef tekst að skilja að flutningastarfsemi landflutningafyrirtækja annars vegar og skipaflutningafyrirtækja hins vegar ætti að vera hægt að koma hér á strandflutningum. Einokunarfyrirkomulagið á þeim flutningum (Forseti hringir.) leiddi til þess að hætt var við strandsiglingar og þær fóru yfir á þjóðvegina.