149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

staðan á húsnæðismarkaði.

[10:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér eyðir hæstv. ráðherra megninu af tíma sínum í að tala um hluti sem hafa verið gerðir ágætlega; breytingar á byggingarreglugerðum, mætti reyndar gera miklu meira þar, afnám tolla, vörugjalda og stimpilgjalda. Allt eru þetta ágætisskref. Lóðir eru auðvitað takmörkuð auðlind og eru ekki til umræðu í þessum sal, heldur er ég að spyrja hvort hæstv. ráðherra sjái það fyrir sér að við munum á næstunni sjá jafn lága vexti hér og annars staðar á Norðurlöndunum.

Það er rétt að raunvextir eru í sögulegu lágmarki, en engu að síður eru þeir þrisvar sinnum hærri en hjá nágrannalöndum okkar, verðtryggðir nafnvextir. Þeir leggjast bæði á byggingarkostnaðinn og síðan á einstaklinginn í 20, 25, 40 ár þar á eftir. Það er samkeppnisstaða sem við getum ekki boðið almenningi upp á.

Ég ítreka spurninguna með verðtrygginguna, herra forseti, (Forseti hringir.) vegna þess að nú er að störfum þriðja nefndin um afnám verðtryggingar á tíu árum og ekkert hefur gerst.