149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hvað er það dýrmætasta sem við eigum? Hvar liggur framtíð okkar lands? Það er í börnunum okkar, það eru börnin okkar, það eru þau sem munu erfa landið. Þau eru framtíðin sem við eigum að byggja á. Þess vegna finnst mér ástæða til þess að við tökum nú upp málefni þeirra og ræðum þau sérstaklega í tengslum við nýja skýrslu sem gerð var fyrir Velferðarvaktina fyrir skömmu. Hún var birt þann 28. febrúar sl., félagsfræðingurinn Kolbeinn Stefánsson vann þá skýrslu. Skýrslan er í rauninni um efnahagslega stöðu íslenskra barna, fátækt barna á árunum 2004–2016. Hún er mikið tengd við eftirmál hrunsins og hvernig í rauninni staða barnanna okkar er núna miðað við það að talað er um hversu vel okkur hefur gengið að rétta úr kútnum eftir hrunið, hvernig í rauninni hagsældin hefur aldrei verið meiri, hvernig hér drýpur smjör af hverju strái.

En það á ekki við. Samkvæmt þessari skýrslu er hún í rauninni bara stuðningur við þá skýrslu sem UNICEF birti í janúar 2016, skýrslu UNICEF sem sýndi fram á mismikla fátækt íslenskra barna. Hún sýndi fram á að 9,1% íslenskra barna bjó hér við mismikla fátækt. Það var sú skýrsla UNICEF sem birtist árið 2016 sem varð til þess að sú kona sem hér stendur ákvað að stofna Flokk fólksins.

Þess vegna, virðulegi forseti, veit ég að öllum er vel ljóst að þessi málaflokkur er mér sérstaklega hjartkær. Í ljós kemur í skýrslu félagsfræðingsins Kolbeins Stefánssonar að það eru ekki einungis 9,1% barnanna sem líður skort heldur talar hann um að 10–15% íslenskra barna séu í fátækt.

Hvað er til ráða? Dregið er fram hvaða hópar það eru af íslenskum börnum sem verst eru staddir. Hverjir eru viðkvæmari í samfélaginu en þeir sem eiga fátækustu foreldrana? Hvaða foreldrar eru það? Það er ekki bara láglaunafólkið okkar, það eru einstæðir foreldrar og það eru öryrkjar. Við vitum líka að öryrkjum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Nýgengi örorku hefur stóraukist og um leið fjölgun barna þeirra öryrkja. Ég segi: Hvernig getum við brugðist við? Ég veit að hæstv. félags- og barnamálaráðherra, sem fékk það hlutverk um síðustu áramót að vera titlaður líka barnamálaráðherra, vill vel. Hann leggur sig allan fram um að reyna að gera veg barnanna okkar sem mestan og bestan. Ég á ekki að standa hér sem fulltrúi stjórnarandstöðu og mæra ráðherra ríkisstjórnar, en það geri ég samt. Ég geri það vegna þess að mér er í rauninni nákvæmlega sama hvaðan góður hugur kemur. Hann á skilið að fá að sjást. Þess vegna er ég stolt af því að fara í þetta samtal við hæstv. barnamálaráðherra og gefa honum tækifæri til að sýna hvernig nú verði staðið að því að útrýma fátækt íslenskra barna.

Staðreyndin er sú að það er ekki bara mögulegt heldur í rauninni gerlegt að gera það strax. Í skýrslunni sem opinberuð var í febrúar sl. kemur fram að skýrsluhöfundur hefur ákveðna sýn á hvernig við getum bætt stöðu barnanna. Ég ætla ekki að fara í skýrsluna sjálfa enda hef ég ekki tíma til þess, en í henni kemur fram hvernig við getum ekki bara bætt stöðuna heldur fundið hvar fátæktin er. Hvernig er hún mæld? Hvernig er með fæði, klæði og húsnæði? Hvernig er með húsnæðislegt öryggi barnanna? Hvernig festa þau rætur? Þau gera það bara ekki. Þessi þjóðfélagshópur, þessi viðkvæmasti hópur okkar, nær ekki að festa rætur.

Í þessu tilviki höldum við áfram þessari umræðu. Ég ætla að koma með lokaorðin mín á eftir því að svo einkennilegt sem það er þá flýgur tíminn þegar maður er kominn hingað. En mig langar að eiga umræðu um þetta mál og segi: Börn hafa sérstöðu þegar kemur að fátæktarumræðunni. Fólk getur deilt um hvort fullorðnir beri ábyrgð á eigin fátækt eða ekki, en eitt er algjörlega óumdeilanlegt: börn bera aldrei ábyrgð á eigin fátækt.