149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Liðin eru sex ár síðan barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi, en stjórnvöld hafa ekki enn staðist þau viðmið sem barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sett fyrir innleiðingu hans. Þau viðmið kalla á heildstæða áætlun um málefni barna. Slíka áætlun hafa stjórnvöld trassað að setja.

Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á yfirstandandi þingi er þingsályktunartillaga um að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og unglinga. Í áætluninni er stefnt að því að bæta líf og líðan allra barna, en við gefum líka viðkvæmum hópum sérstakan gaum. Tillögurnar eru yfirgripsmiklar. Þar á meðal eru aðgerðir til að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir. Þær eru í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik og geðraskanir, langveikra barna, innflytjenda, barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda eða hegðunarvanda og til að vernda börn gegn heimilisofbeldi, kynferðisbrotum og vanrækslu.

Við viljum að fundnar verði leiðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur með styttri og sveigjanlegri vinnutíma og að tryggja foreldrum að þeir geti sinnt veikum og fötluðum börnum sínum. Við viljum lengja fæðingarorlof í 12 mánuði og bæta afkomu barnafjölskyldna með því að hækka barnabætur og að fleiri fjölskyldur fái barnabætur en nú er.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan eru tillögurnar mjög yfirgripsmiklar. Þær ganga út á það að bæta líðan allra barna í landinu. Verði tillagan samþykkt, sem nú hefur verið til vinnslu í hv. velferðarnefnd síðan í september, og unnið eftir henni, mun hún bæta stöðu allra barna, (Forseti hringir.) ekki síst þeirra sem búa við fátækt og eru í viðkvæmri stöðu.