149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er ömurlegt til þess að vita að það að eignast fatlað barn getur leitt til fátæktar, og ekki bara fátæktar heldur sárrar fátæktar. Látið mig vita að það er ekkert erfiðara en að reyna að berjast við kerfi sem tekur ekkert tillit til þeirra barna sem eru fædd með fötlun, kerfi sem er mjög ósanngjarnt. Því getur fylgt gífurlegur kostnaður fyrir viðkomandi fjölskyldur og kerfið lætur ekki segjast heldur setur bæði foreldra og barn í þá aðstöðu að vera fátækt.

Síðan tekur það við að fatlaði einstaklingurinn þarf að fara í skóla. Er skólakerfið tilbúið? Nei, í fæstum tilfellum. Tómstundir, íþróttir, aðgengismál fyrir fötluð börn? Nei, því miður, þetta er gleymdi hópurinn. Þetta er sá hópur sem sjaldnast er talað um og fær því miður ekki næga aðstoð. Þetta er fólk sem lifir við sárafátækt.

Hvað er sárafátækt? Hvaða afleiðingar hefur það að foreldri eða barn búi við sárafátækt? Það hefur vannæringu í för með sér, sem er auðvitað skelfilegt, þunglyndi og kvíða fyrir hverjum einasta degi. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir foreldra fátæks barns að lifa við þessar aðstæður á hverjum einasta degi? Heilsan gefur sig. Hvað þá? Hver tekur þá við? (Forseti hringir.) Haldið þið að það verði eitthvað betra, að heilbrigðiskerfið hoppi til og hjálpi við að útrýma fátæktinni?