149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

búvörulög.

646. mál
[15:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og túlka það sem svo að hann telji heimildir afurðastöðvanna til samstarfs og til að styrkja stöðu sína vera nokkrar innan núverandi lagaumhverfis, en lít þannig á að ef á það reynir að endurskoða þurfi það væri það eftir að búið yrði að láta reyna á umhverfið eins og það er núna. Er það rétt skilið hjá mér?

Við erum hér að ræða starfsumhverfi sauðfjárræktarinnar. Sauðfjárrækt hefur sjaldan eða aldrei staðið 100% undir tekjum eins heimilis. Hins vegar hefur sauðfjárrækt á sama hátt verið undirstaða búsetu allt í kringum landið. Það skiptir því miklu máli hvernig sauðfjárbúskapur getur spilað saman við aðra atvinnusköpun úti um landið, eins og tekjuöflun úr skógrækt o.s.frv. Margir sauðfjárbændur eru jafnframt skógarbændur, einhverjir bæði með kúabúskap og sauðfjárbúskap, aðrir með ferðaþjónustu og sauðfjárbúskap og þannig gætum við lengi talið.

Hvernig er horft á þessa heildarmynd? Er horft á það hvernig ein grein í strjálbýli getur styrkt aðrar, ef við getum sagt sem svo?