149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

búvörulög.

646. mál
[15:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi túlkun hv. þingmanns á svari mínu: Þær spurningar sem koma upp við erindi afurðastöðvanna um heimildir til samstarfs verða alltaf þær sömu, sama hvort þær koma inn í þingsal eða til opinberra stofnana sem fara með þau mál. Það er spurningin hvernig beri að skila og hvernig menn ætli að skila hagnaðinum, ábatanum, af auknu samstarfi til bænda og neytenda. Því þarf að svara áður en lengra yrði gengið. En í núverandi lagaumhverfi er leiðin í gegnum Samkeppniseftirlitið, það er í raun sá farvegur sem þessi mál verða að fara í. Hann er alveg klárlega seinfarinn en ég veit ekki ástæðurnar fyrir því. Því verða aðrir að svara.

Ég er sammála því að sauðfjárræktin eins og hún hefur verið þarf töluvert til að standa ein og sér undir rekstri heils heimilis. Við sjáum það á samsetningu sauðfjárræktarinnar, fjölda bænda, fjölda búa, stærð o.s.frv., að þetta er meira og minna tengt annarri vinnu. Ég er hins vegar algerlega andvígur því að búvörusamningarnir og samningar um sauðfjárræktina eigi að bera uppi byggðina í landinu. Við getum ekki unnið hlutina með þeim hætti. Ég er með á því að sauðfjárrækt er grundvallaratriði varðandi byggð á sumum svæðum en fleiri þættir verða að koma inn. Þegar við horfum til þessarar heildarmyndar verðum við að treysta á að byggðaáætlun hverju sinni endurspegli alla þessa þætti. Við getum ekki gert það í gegnum einstaka samninga eins og t.d. um stuðning við sauðfjárrækt, að gera kröfuna þar, að hún sé það tæki í byggðamálum sem dugi til að halda úti byggðinni. Það verður aldrei þannig. Það er miklu nær að vinna þetta á heildstæðari grunni sem tekur til fleiri málaflokka, svo sem samgangna, fræðslumála og menningarmála. Það þarf að tengja þetta allt saman.