151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:20]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það væri hægt að halda langa ræðu um allar rangfærslurnar í síðustu ræðu en ég ætla frekar að tala aðeins um upprætingu sjúkdóma. Það vill nefnilega þannig til að heimsbyggðinni hefur tekist að uppræta tvo sjúkdóma í heild, þ.e. bólusótt og nautgripaplágu. Það eru fjölmörg önnur verkefni í gangi um að uppræta sjúkdóma. Það er mjög merkilegt að hugsa til þess að í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir því að vera að reyna að uppræta nýjan sjúkdóm, Covid-sjúkdóminn, sem var ekki til fyrir tveimur árum, og verður þetta að kallast mjög áhugavert og merkilegt verkefni. Nú gengur löndum misvel að bólusetja. Ísland er aðeins fyrir ofan meðaltalið í Evrópu og það er alveg ágætt. Við erum langt á eftir öðrum löndum, t.d. Bútan sem fór nánast úr 0% upp í 85% bólusetningarhlutfall á nokkrum vikum. Ísrael hefur komist upp fyrir 60%, Bandaríkin eru mjög ofarlega o.s.frv. En mjög mörg lönd úti um allan heim eru langt fyrir aftan okkur og við verðum að hafa í huga í þessu stóra samhengi að jafnvel þó svo að við verðum öll bólusett á Íslandi geta komið upp ný afbrigði annars staðar í heiminum sem gætu ógnað okkur í framtíðinni. Það liggur því mikið við að við náum tökum á þessu heildstætt. En þá þurfum við líka að passa okkur á því að skoða réttu tölurnar í þessu öllu. Það hefur mikið verið fjallað um hættu af blóðtöppum. Nú var bóluefni Johnson og Johnson tekið úr umferð í Bandaríkjunum út af hættunni á þeim. Það er rétt, það þarf að skoða þessi mál — vísindamenn eru góðir í þessu og ætla væntanlega að fara mjög vandlega yfir allt — en hættan af blóðtöppum af Covid-sjúkdómnum sjálfum er margfalt meiri. (Forseti hringir.) Það er alveg ástæða til þess að setja þetta allt í rétt samhengi og muna að við erum að kljást við þennan stóra sjúkdóm saman og þegar hann er búinn þá er nóg af öðrum sjúkdómum til að takast á við.