151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þetta er auðvitað ívilnandi úrræði sem er ekki til staðar í dag og við erum að reyna að koma til móts við ýmiss konar athugasemdir sem hafa lotið að ýmsum málum í íslensku samfélagi.

Varðandi aðganginn að upplýsingum: Það kemur fram í greinargerðinni að aðilar geti komið sér saman um það hver sé fyrirsvarsmaðurinn en sé maki eða sambúðarmaki ekki til staðar færist rétturinn til lögráða barns eða niðja hins látna og svo koll af kolli. Í sjálfu sér er þá ekkert því til fyrirstöðu að þau komi sér saman um hvert þeirra skuli vera fyrirsvarsmaður. En ef þeir sem rétt eiga til að koma fram sem fyrirsvarsmaður, svo sem eftirlifandi foreldrar, börn eða systkini, koma sér ekki saman um það þá fellur rétturinn niður samkvæmt ákvæðinu. Ekki var talinn nægjanlega góður bragur á því að láta lögreglu skera úr um það í svona ívilnandi ákvæði þar sem verið er að reyna að veita aðgang að gögnum sem ekki er í dag og eftirfylgni með rannsókn. Ég held að með þessari tillögu séum við að reyna að koma til móts við það og síðan verðum við að fá reynslu á þetta ívilnandi ákvæði sem verður vonandi til mikilla bóta.