151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ákvæðið um fyrirsvarsmenn aðstandenda látins einstaklings sé eitthvað sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun auðvitað þurfa að skoða. Ég held að það sé kannski ekki rétt að setja lögreglu í þá stöðu að skera úr um ágreining eftirlifandi aðstandenda, betra sé að það fari koll af kolli frá maka til barns eða annarra eftirlifandi aðstandenda. Fyrirsvarsmaður hefur sömu réttarstöðu og ef hann hefði sjálfur beðið tjón af refsiverðri háttsemi.

Það eru auðvitað ekki sömu lögreglumenn sem rannsaka málið. Ef upp koma mál þar sem lögreglumenn eru aðilar að máli eða mögulegir sakborningar er það auðvitað mjög skýrt að það eru ekki sömu lögreglumenn sem rannsaka málið. En það er eitthvað sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd þarf auðvitað að skoða og er síðan hægt að skoða í takti við breytingar á lögreglulögum sem eru til umfjöllunar í nefndinni.