151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ef gengið væri lengra í því að veita brotaþolum aðild að sakamálum sem snúast um brotaþola sjálfa væri það, segir ráðherrann, grundvallarbreyting á íslensku sakamálaréttarfari. Kannski er það nákvæmlega þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Við þurfum grundvallarbreytingu á íslensku sakamálaréttarfari, sérstaklega þegar kemur að kynferðisbrotum. Vakin er athygli á því í sameiginlegri umsögn allra þessara kvenréttindasamtaka að níu konur hafa kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir að hafa brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar. Að brotaþolar fái aðild að eigin málum er að mati þessara félaga ekki bara leið til að styrkja réttarstöðu þeirra heldur líka til að veita lögreglu og ákæruvaldi aðhald, til þess að ekki sé brotið á fólki sem sækir rétt sinn í sakamálum. Grundvallarbreyting á íslensku sakamálaréttarfari er nákvæmlega það sem við þurfum. Þess vegna hefði það alla vega verið tilraunarinnar virði að ná alla þá leið í þessu frumvarpi. En þetta er þó vonandi skref í rétta átt.