151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

697. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, það varðar nýsköpun, arð, yfirskattanefnd o.fl. Markmið breytinganna er að styrkja og efla skattalegt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja, einstaklinga og annarra lögaðila auk nauðsynlegra leiðréttinga og breytinga á lögum á sviði skattamála. Ég hyggst fara yfir hverja tillögu frumvarpsins fyrir sig og byrja á skattlagningu á kauprétti hlutabréfa.

Í fyrsta lagi er lagt til að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja, sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í fyrirtækinu, geti frestað skattalegri meðferð kaupréttar þar til bréfin eru seld. Í þessu felst rýmkun á núverandi ákvæðum tekjuskattslaga um slík tilvik. Með breytingunni yrði frestun á skattalegri meðferð kaupréttar á grundvelli ákvæðisins ekki einskorðuð við launþega viðkomandi félaga heldur myndi hún einnig ná almennt til stjórnarmanna viðkomandi félaga án þess að sérstakt launþegasamband sé til staðar á milli stjórnarmannsins og félagsins. Skilyrði er þó að félagið sem um ræðir sé nýsköpunarfyrirtæki í skilningi laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og uppfylli skilgreiningu laganna um að starfa að rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum óháð því hvort öll slík verkefni hafi hlotið staðfestingu Rannís. Markmiðið með þessu er að nýsköpunarfyrirtæki geti í meiri mæli notið sérfræðiþekkingar frá stjórnarmönnum félagsins og haldið þannig þekkingu innan félagsins með því að umbuna þeim með kaupréttum án þess að til skattlagningar komi fyrr en viðkomandi selur bréfin. Málið snýst í raun og veru bara um það hvenær til skattlagningarinnar kemur, ekki hvort viðkomandi réttindi eru skattlögð.

Næst að öðru atriði sem er skattlagning breytanlegra skuldabréfa. Hér er lögð til breyting á skattlagningu hagnaðar hjá eiganda breytanlegra skuldabréfa. Slíkur hagnaður, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum, er í dag skattlagður við nýtingu breytiréttarins í tilviki lögaðila. Hagnaður einstaklinga er hins vegar skattlagður við sölu bréfanna í stað þess að miðað sé við tímamarkið þegar breytirétturinn er nýttur. Sé eigandinn lögaðili þarf hann því að standa skil á tekjuskatti á því tekjuári sem breyting skuldabréfsins í hlutabréf á sér stað þótt hann hafi enn ekki innleyst hagnaðinn af hærra verði skuldabréfanna með sölu hlutabréfanna. Lagt er til að skattlagningunni verði frestað um tvenn áramót í tilviki lögaðila. Þetta gildir þó aðeins vegna viðskipta með breytanleg skuldabréf við lögaðila sem fellur undir lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og uppfyllir skilgreiningu laganna um að starfa að rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum, óháð því hvort öll slík verkefni hafi hlotið staðfestingu Rannís.

Þá að þriðja atriðinu sem varðar skipti á hlutabréfum. Hér er lagt til að söluhagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar, sem myndast þegar hlutabréfum er skipt fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi samkvæmt lögum um tekjuskatt, teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en viðtökuhlutabréfin eru seld.

Að fjórða atriðinu sem er breyting á lögum um yfirskattanefnd. Hér eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um yfirskattanefnd. Í fyrsta lagi er lögð til breyting varðandi málskostnað. Samkvæmt lögum um yfirskattanefnd getur nefndin úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði ef úrskurður nefndarinnar hefur fallið málsaðila í hag að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Yfirskattanefnd hefur sett sér starfsreglur um ákvörðun málskostnaðar sem aðgengilegar eru á vefsíðu nefndarinnar og er lagt til að lagastoð verði skotið undir það verklag nefndarinnar. Í öðru lagi er lögð til breyting á ákvæði laganna sem fjallar um að í yfirskattanefnd skuli sitja sex menn sem skipaðir skulu til sex ára í senn og skulu fjórir nefndarmanna hafa starfið að aðalstarfi. Síðustu ár hefur málum hjá yfirskattanefnd fækkað og frá árinu 2018 hefur einungis einn nefndarmaður sem ekki hefur starfið að aðalstarfi starfað í nefndinni. Því er lögð til sú breyting að ekki verði fortakslaust skylt að skipa tvo nefndarmenn sem ekki hafa starfið að aðalstarfi og með því gefið svigrúm til þess að einungis skuli skipaður einn slíkur nefndarmaður með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Í þriðja lagi er lögð til breyting varðandi endurákvörðun vegna kæru þannig að ákvæði laganna einskorðist ekki við ákvarðanir ríkisskattstjóra heldur taki einnig til ákvarðana annarra stjórnvalda sem kæranlegar eru til yfirskattanefndar.

Fimmta atriði frumvarpsins varðar breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur eru til komnar vegna lagabreytinga sem áttu sér stað síðastliðið vor. Þá voru arðgreiðslur milli hlutafélaga, einkahlutafélaga og samlagshlutafélaga undanþegnar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Við þá breytingu kom fram að arður á milli slíkra félaga kæmi ekki til endanlegrar skattlagningar hjá móttakanda þar sem í tekjuskattslögum væri kveðið á um heimild til að draga umræddar tekjur frá tekjuskattsstofni. Engu að síður væri greiðanda arðs skylt að halda eftir staðgreiðslu og skila í ríkissjóð. Afdráttarskyldan fæli í raun í sér óhagræði fyrir bæði greiðanda og móttakanda arðs auk þess sem ríkissjóður hefði ekki beinar tekjur af þeirri staðgreiðslu sem skilað væri. Nú hefur verið vakin athygli á að framangreind breyting feli í sér mismunun á milli félagaforma þar sem breytingin tekur ekki til arðs eða fjárhæða sem greiddar eru eða úthlutað er frá framangreindum félögum til kaupfélaga, samvinnufélaga og annarra slíkra félaga þrátt fyrir að sömu rök geti að þessu leyti átt við um þessi félagaform. Því er lagt til að kaupfélög og önnur samvinnufélög verði jafnframt undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda frá hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum. Þá er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða í stað brottfalls sambærilegs bráðabirgðaákvæðis sem kveður á um hvernig haga skuli afdrætti staðgreiðslu vegna breytinga á skatthlutfalli fjármagnstekna. Ákvæðið er uppfært miðað við gildandi skatthlutföll á þeim tímabilum sem það tekur til en er að öðru leyti efnislega óbreytt.

Sjötta atriðið sem ég vil koma inn á eru breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Lagt er til ákvæði um gjaldtöku félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri sem hefur skort í lög sem og um skráningu annarra áhugamannafélaga. Jafnframt er, í samræmi við frumvarp dómsmálaráðherra, um breytingu á hjúskaparlögum, lagt til að tekið verði gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs er snýr að viðurkenningu á hjónavígslu sem framkvæmd er erlendis en vafi leikur á um hvort uppfyllt séu skilyrði fyrir skráningu hjónavígslunnar. Þá er lagt til að gjöld fyrir vegabréfsáritanir hækki til samræmis við gengi evru í marsmánuði 2021. Rekja má ástæðuna til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, samanber reglugerð um vegabréfsáritanir, sem gerir kröfu um samræmda gjaldtöku.

Sjöunda atriðið varðar breytingar á almennum hegningarlögum. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum í kjölfar dóms Héraðsdóms Suðurlands, sem kveðinn var upp í janúar síðastliðnum. Ákærðu í málinu voru sýknaðir af meiri háttar broti gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga á þeim forsendum að í ákvæðinu væri ekki vísað sérstaklega til laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þ.e. það ákvæði sem brotið féll undir. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga þar sem nauðsynlegt er að tilvísun til hegningarlaga í öðrum lögum sé einnig tekin upp í viðeigandi ákvæði hegningarlaga í þeim tilfellum þegar um stórfelld brot er að ræða. Hér er um að ræða ákvæði laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, laga um erfðafjárskatt, laga um fjársýsluskatt og laga um stimpilgjald. Breytingarnar fela að öðru leyti ekki í sér neinar efnislegar breytingar á umræddum lagaákvæðum.

Áttunda atriðið varðar drátt á lokum álagningar. Lagðar eru til breytingar í tengslum við drátt á lokum álagningar. Í lögum um Ríkisútvarpið og lögum um málefni aldraðra er kveðið á um færslu gjalddaga í þeim tilvikum ef framlagning álagningarskrár dregst fram yfir 1. júní eða 1. nóvember. Nú háttar svo til að lok álagningar og framlagning álagningarskrár fara ekki lengur fram samtímis og eru því lagðar til breytingar í þá veru að dragist lok álagningar fram yfir framangreindar dagsetningar færist gjalddaginn til. Viðmiðið verður því lok álagningar en ekki framlagning álagningarskrár enda hefur breyting orðið á framlagningu álagningarskrár sem nú er lögð fram 15 dögum fyrir lok kærufrests, hvort heldur um er að ræða einstaklinga eða lögaðila.

Virðulegur forseti. Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra. Gert er ráð fyrir því að fjárhagsleg áhrif tillagna um breytta skattlagningu kaupréttar, skipta á hlutabréfum og breytanlegra skuldabréfa verði innan tekjuramma fjárlaga til framtíðar þótt einhver tilfærsla kunni að eiga sér stað í tekjuskattsgreiðslum milli ára. Ekki er talið að tillaga frumvarpsins um að kaupfélög og önnur samvinnufélög verði undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög og einkahlutafélög vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda, hafi bein áhrif á tekjur ríkissjóðs. Tillagan mun hins vegar væntanlega hafa einhver áhrif á sjóðstreymi hans.   Þá er gert ráð fyrir að aðrar breytingartillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu muni samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga og lögaðila. Hér er um að ræða nauðsynlegar breytingar á lögum á sviði skattamála sem munu styrkja og efla skattalegt umhverfi einstaklinga og lögaðila og leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari auk þess sem tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni hagsæld til framtíðar. Tillögur frumvarpsins munu hafa áhrif á eftirlit og umsýslu í skattframkvæmd að einhverju leyti verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.