151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 235/2020 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn .

691. mál
[20:16]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 235/2020 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2017/828 frá 17. maí 2017, um breytingu á tilskipun 2007/36/EB að því er varðar hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma, verði felld inn í EES-samninginn. Með tilskipuninni sem felld er inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 235/2020 eru settar reglur í tengslum við nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa sem fylgja atkvæðisrétti í tengslum við aðalfundi félaga á markaði.

Gerðin inniheldur reglur um rétt skráðra félaga til að staðfesta deili á hluthöfum félagsins til þess að geta átt samskipti við þá með beinum hætti og auðvelda þannig hluthöfum að nýta réttindi sín í félaginu. Tilskipunin inniheldur reglur um milliliði milli félags og hluthafa, m.a. um gagnsæi kostnaðar, en flókin keðja milliliða getur gert hluthöfum erfiðara fyrir að nýta réttindi sín og hindrað þátttöku þeirra. Tilskipunin inniheldur reglur um gagnsæi meðal stofnanafjárfesta, eignarstýringaraðila og umboðsráðgjafa. Tilskipunin inniheldur reglur um að skráð félag skuli setja sér launakjarastefnu fyrir stjórnendur og að hluthafar hafi rétt til að greiða atkvæði um stefnuna á hluthafafundi og hafa þannig áhrif á launakjarastefnu félagsins. Tilskipunin inniheldur reglur um gagnsæi þýðingarmikilla viðskipta skráðs félags við tengda aðila.

Með tilskipun 2017/828 voru gerðar breytingar á tilskipun 2007/36/EB sem innleidd var í lög um hlutafélög, nr. 2/1995.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.