151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn .

693. mál
[20:18]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/760 frá 29. apríl 2015 um evrópska langtímafjárfestingarsjóði verði felld inn í samninginn auk framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar 2018/480 frá 4. desember 2017 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/760 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um fjármálaafleiðugerninga sem hafa þann eina tilgang að verja gegn áhættu, nægilegan líftíma evrópsku langtímafjárfestingarsjóðanna, viðmiðanir fyrir mat á markaðnum fyrir hugsanlega kaupendur og virði eignanna sem á að losna við og tegundir og einkenni aðstöðunnar sem stendur almennum fjárfestum til boða.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/760 sem felld er inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 19/2020 kveður á um evrópska langtímafjárfestingarsjóði sem veita langtímafjármögnun til ýmissa verkefna á sviði t.d. innviða, óskráðra fyrirtækja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Um nýja evrópska sjóðategund er að ræða sem telst þó til sérhæfðra sjóða en ekki verðbréfasjóða og fellur undir þær reglur sem um rekstraraðila sérhæfðra sjóða gilda. Þessum sjóðum er ætlað að fjárfesta í verkefnum sem þurfa langtímafjármögnun en erfitt getur verið að finna fjármagn fyrir. Þá er hugmyndin að sjóðirnir geti hentað þeim sem þurfa að fjárfesta til lengri tíma eins og lífeyrissjóðum, vátryggingafélögum og sveitarfélögum.

Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2018/480 er tæknilegur eftirlitsstaðall með reglugerð 2015/760 um evrópska langtímafjárfestingarsjóði að því er varðar afleiðutengda fjármálagerninga sem einungis eru nýttir í áhættuvarnir, hæfilegan líftíma evrópskra langtímafjárfestingarsjóða, viðmið fyrir mögulega kaupendur og mat á eignum til sölu og kröfur til aðstöðu fyrir almenna fjárfesta.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.