151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

706. mál
[20:21]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006. Með frumvarpinu er lagt til að fella brott úr fyrrnefndum lögum ákvæði um tímabundnar ráðstafanir sem telja verður lokið. Fyrst og fremst er um að ræða brottfall ákvæða, nánar tiltekið lagahreinsun. Einnig er lagt til að heiti laganna verði breytt í lög um svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar, til að endurspegla betur efni lagaákvæðanna sem eftir standa.

Frumvarpið tekur mið af vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins við að útfæra nýtt hlutverk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar eftir að hlutverki þess við að koma fasteignum á varnarliðssvæðinu í borgaraleg not lauk með sölu á síðustu eignunum sem voru í umsýslu félagsins. Með frumvarpinu er því m.a. lögð til sú breyting að fella úr gildi 4. gr. laga nr. 176/2006 sem fjallar um hlutverk þróunarfélagsins samkvæmt lögunum.

Fyrir liggur að land í nágrenni flugvallarins er verðmætt og fyrirséð að verðmæti þess muni aukast enn frekar. Gott skipulag er forsenda þess að hægt verði að hámarka samfélagslegan ábata af nýtingu landsins. Því þarf að tryggja að skipulag verði heildstætt og land verði nýtt sem best óháð mörkum skipulagssvæða sveitarfélaga og Keflavíkurflugvallar. Af þessum ástæðum hefur þróunarfélagið fengið nýtt hlutverk við að leiða formlegt samstarf ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í eigu íslenska ríkisins við Keflavíkurflugvöll og nærsvæða hans. Samkomulag þessa efnis var undirritað 16. desember 2019 milli framangreindra aðila og ríkissjóðs. Efni frumvarpsins tekur mið af samkomulaginu varðandi nýtt hlutverk þróunarfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar og 2. umr.