151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar .

704. mál
[20:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1183, sem er 704. mál þingsins, um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót heildstæðu viðurlagakerfi vegna brota á lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Auk þess er lagt til að heimildir Fiskistofu til að sinna rafrænu eftirliti verði styrktar. Þá er lagt til að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeild verði afmarkað betur, einkum í samræmi við reglur samkeppnisréttar.

Í desember 2018 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum þar sem álitið var að ráðast þyrfti í ýmsar úrbætur. Unnið hefur verið að úrbótum samkvæmt ábendingum í skýrslunni og er frumvarp þetta liður í því starfi. Í mars 2019 skipaði ég verkefnisstjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Um leið var settur á fót samráðshópur með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar frá júní 2020, sem nefnist Bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni, er einkum fjallað um heimildir til ákvörðunar viðurlaga við fiskveiðieftirlit, um heimildir um rafrænt eftirlit og um ákvæði laga um stjórn fiskveiða um hámarksaflahlutdeild. Frumvarpið var unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning.

Ég mun nú víkja nánar að einstökum þáttum frumvarpsins. Lagt er til að komið verði á heildstæðu viðurlagakerfi við brotum gegn fiskveiðilöggjöfinni þannig að sömu heimildir verði til staðar til að bregðast við brotum á lögunum. Í fyrsta lagi er lagt til að Fiskistofu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á eigendur eða útgerðir fiskiskipa og vigtunarleyfishafa frá 25.000 kr. upp í 50 millj. kr. Við ákvörðun um fjárhæð sekta er afmarkað í lögum til hvaða atriða Fiskistofa skuli líta.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á þeim viðurlagaákvæðum sem mæla fyrir um að Fiskistofa skuli beita leyfissviptingum á þann veg að hún geti gripið til slíkra ráðstafana, sem er í rökréttu framhaldi af nýjum heimildum til álagningar stjórnvaldssekta. Er þá ráðgert að það verði háð mati Fiskistofu með hliðsjón af eðli og umfangi þess brots sem um ræðir hverju sinni hvort forsendur standi til að beita sviptingu leyfis, leggja á stjórnvaldssekt eða eftir atvikum beita hvoru tveggja samhliða. Ber Fiskistofu að leggja ígrundað mat á það í hverju tilviki fyrir sig hvort og hvaða viðurlög eru best til þess fallin að skila tilætluðum áhrifum og gæta að því að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þannig getur Fiskistofa lokið máli með sátt og fallið frá beitingu viðurlaga ef um fyrsta brot er að ræða sem talið er óverulegt.

Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um hvaða brot eigi að sæta rannsókn sakamáls að undangenginni kæru Fiskistofu eða Landhelgisgæslu. Lagt er til að ef brot telst meiri háttar, eins og nánar er kveðið á um í frumvarpinu, beri að vísa því til lögreglu. Varði brot á lögunum bæði stjórnvaldssektum og refsingu skuli Fiskistofa og Landhelgisgæslan meta hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá Fiskistofu. Er því gert ráð fyrir ákveðnu samtali milli þessara stofnana til að tryggja að sambærileg mál hljóti sambærilega meðferð.

Í fjórða lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði sem kveða á um að heimild Fiskistofu til leyfissviptinga eða til álagningar stjórnvaldssekta falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að þeirri háttsemi sem viðurlögum varðar lauk, samanber sambærileg ákvæði í refsilöggjöf og sjónarmið um meðalhóf.

Í fimmta lagi er lagt til að Fiskistofu verði í ákveðnum tilvikum heimilt að leggja dagsektir á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni þær upplýsingar sem viðkomandi ber að veita lögum samkvæmt. Þá er gert ráð fyrir sterkari heimildum Fiskistofu til innheimtu dagsekta og í sjötta lagi er lögð til heimild Fiskistofu til að birta opinberlega stjórnvaldsákvarðanir sem varða brot gegn fiskveiðilöggjöfinni til að auka gegn gagnsæi og fyrirsjáanleika í störfum stofnunarinnar.

Þá er í frumvarpinu lagt til að heimildir Fiskistofu til að framkvæma rafrænt eftirlit verði efldar. Í fyrsta lagi er þar um að ræða aðgang Fiskistofu að upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun á löndunarhöfnum. Í öðru lagi er um að ræða eftirlit með fjarstýrðum, fljúgandi loftförum með upptökubúnaði og öðrum búnaði sem getur safnað upplýsingum. Í þriðja lagi er mælt fyrir um rafrænar afladagbækur í snjallsímaforriti eða rafræna aflaskráningu og í fjórða lagi er mælt fyrir um tilraunaverkefni um myndavélaeftirlit um borð í fiskiskipum út árið 2022.

Með frumvarpinu er kappkostað að gætt verði að reglum um persónuvernd og um meðalhóf aðgerða við slíkt rafrænt eftirlit.

Þá eru einnig lagðar til breytingar á ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem varða skilgreiningu á tengdum aðilum og raunverulegum yfirráðum hvað varðar framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeildir. Í fyrsta lagi eru Fiskistofu færðar öflugri heimildir til að kalla eftir hvers konar upplýsingum og gögnum sem stofnunin telur nauðsynlegar til að leggja mat á hámarksaflahlutdeildir. Í öðru lagi eru Fiskistofu veittar heimildir til að eiga samstarf og óska eftir upplýsingum og gögnum frá öðrum stofnunum við mat sitt á því hvort aðilar teljist tengdir. Í þriðja lagi skal Fiskistofa birta upplýsingar um eignarhald 30 stærstu handhafa aflahlutdeildarhafa og 30 stærstu handhafa krókaaflahlutdeildarhafa á vef sínum.

Við afmörkun á hugtakinu raunveruleg yfirráð sem hafa ekki verið skilgreind í lögum um stjórn fiskveiða áður, er áfram byggt á mati Fiskistofu og því hvort hámarksaflahlutdeild sé náð en matsþættir og hugtök eru færð til samræmis við samkeppnislög þannig að stofnanirnar séu með svipaðar heimildir við eftirlit sitt og geti átt samstarf við úrlausn mála þótt markmið laga sé ekki það sama. Áherslan er á raunverulega aðstöðu aðila til að hafa yfirráð yfir öðrum. Hvaða aðstæður eru til staðar skipti ekki höfuðmáli heldur víðtæk skilgreining hugtaksins.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því, en þar er ítarlegar fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.