151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

staðsetning vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands.

707. mál
[22:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands. Eins og ég kom inn á í ræðu minni um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun hér áðan þá kemur fram í a-lið 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins að gert er ráð fyrir að ráðherra umhverfis- og auðlindamála, í samráði við ráðherra orkumála, leggi fram tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands þar sem gerð skal grein fyrir stefnu, meginreglum og viðmiðum við hagnýtingu vindorku á landi.

Í tillögu þessari til þingsályktunar sem ég mæli hér fyrir felst því tillaga að stefnumótun ríkisins um staðsetningu vindorkuvera í samræmi við framangreint ákvæði. Í tillögunni er, í samræmi við frumvarpið, miðað við að landsvæðum verði skipt í þrjá flokka í tengslum við vindorkunýtingu. Í fyrsta lagi flokkur 1: Landsvæði þar sem öll nýting vindorku verður óheimil. Flokkur 2: Landsvæði sem geta í eðli sínu almennt talist viðkvæm með tilliti til hagnýtingar vindorku, en þar sem slík uppbygging getur þó komið til álita að fenginni skoðun og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Flokkur 3: Landsvæði sem falli hvorki undir flokk 1 né flokk 2.

Í frumvarpinu er kveðið á um að ákvæði þess öðlist þegar gildi, en komi hins vegar til framkvæmda þegar tillaga til þingsályktunar þar sem gerð skal grein fyrir stefnu, meginreglum og viðmiðum við hagnýtingu vindorku á landi hefur verið samþykkt. Eins og rakið er í greinargerð með tillögunni þá var við undirbúning að þeirri skiptingu lands í flokka sem lögð er til í tillögunni að hluta byggt á vinnu verkfræðistofunnar Eflu sem býr yfir sérfræðiþekkingu á vindorkumálum bæði hérlendis og erlendis. Sérfræðingarnir tóku saman fyrir ráðuneytið ýmis gögn og upplýsingar um þá áhrifaþætti sem áhrif hafa á flokkun landsvæða. Þessi vinna var í framhaldinu nýtt af hálfu ráðuneytisins við mótun endanlegrar flokkunar landsvæða og skilgreiningu stefnu, meginreglna og viðmiða eins og hún birtist í tillögunni. '

Sú greiningarvinna sem átti sér stað við vinnslu tillögunnar var unnin í samstarfi og samráði við ýmsa hagaðila og leiddi til flokkunar landsvæða eftir eftirfarandi áhrifaþáttum; friðlýst svæði og svæði á náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá, Ramsar-svæði, svæði á heimsminjaskrá UNESCO og svæði sem hafa verið tilnefnd á þann lista, mikilvæg fuglasvæði, brunn- og grannsvæði vatnsverndar, friðlýstar menningarminjar, svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, óbyggð víðerni, bæði utan og innan miðhálendis og svæði á náttúruverndaráætlunum.

Ljóst er að flest þau svæði og áhrifaþættir sem taldir eru upp hér að framan eru tiltölulega skýrt afmarkaðir annaðhvort í lögum eða með öðrum hætti. Þau svæði sem gert er ráð fyrir að falli undir landsvæði í flokki 1 og 2 hafa einnig í flestum tilfellum verið ítarlega kortlögð af hálfu stofnana ríkisins. Kortagögn varðandi þessa flokkun lands eru mikilvæg hjálpartæki við mat og ákvörðun um staðsetningu einstakra virkjunarkosta með tilliti til flokkunar lands. Hins vegar getur einnig þurft að leita til frumgagna eða annarra undirliggjandi gagna um viðkomandi svæði eins og kveðið er á um í áðurgreindu frumvarpi til laga um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Dæmi um slík gögn eru friðlýsingarskilmálar einstakra svæða í tengslum við friðlýsingu þeirra til að taka af allan vafa um landfræðileg mörk. Slík frumgögn hafa forgang umfram kort enda er staða svæðisins skilgreind í slíkum frumgögnum. Því er í fyrrgreindu frumvarpi gert ráð fyrir því að virkjunarkostir í vindorku verði ávallt staðreyndir með ákveðnum hætti af verkefnisstjórn rammaáætlunar við upphaf meðferðar slíkra mála.

Eins og ég hef rakið þá byggist tillaga þessi til þingsályktunar á skilgreiningu þriggja flokka landsvæða eins og lagt er til í frumvarpi til breytinga á lögum nr. 48/2011. Í flokk 1 er lagt til að falli landsvæði þar sem öll uppbygging vindorkuvera, samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, verður óheimil. Í þennan flokk svæða falla helstu náttúruverðmæti landsins enda almennt um að ræða verðmætustu svæði þjóðarinnar. Þar er fyrst að nefna friðlýst svæði á A-hluta náttúruminjaskrár. Þar er um að ræða svæði sem hafa verið friðlýst annars vegar samkvæmt náttúruverndarlögum og hins vegar þau svæði sem hafa verið friðlýst samkvæmt sérlögum.

Í öðru lagi er um að ræða í flokki 1 svæði á heimsminjaskrá UNESCO eða sem hafa verið tilnefnd á skrána. Þau svæði sem nú eru á heimsminjaskránni hafa þegar verið friðlýst. Hins vegar eru tiltekin svæði sem eru enn sem komið einungis á tilteknum skoðunarlista en hafa ekki formlega verið tilnefnd á skrána.

Í þriðja lagi eru Ramsar-svæði en það eru svæði sem eru á alþjóðlegri votlendisskrá Ramsar-samningsins sem Ísland er aðili að. Sá samningur hefur það að markmiði að stuðla verndun búsvæða fugla á votlendissvæðum. Öll Ramsar-svæði hérlendis hafa þegar verið friðlýst.

Í fjórða lagi er í flokki 1 lagt til að óbyggð víðerni innan marka miðhálendis Íslands verði í þessum flokki. Eins og ég kem frekar inn á hér á eftir þá er lagt til að óbyggð víðerni falli í sitt hvorn flokkinn eftir því hvort þau sé innan marka miðhálendis Íslands eða ekki. Eins og rakið er í greinargerð með tillögunni þá njóta ófriðlýst óbyggð víðerni ekki tryggrar verndar gegn framkvæmdum sem raskað geta víðernum. Ég tel mikilvægt að reyna eins og kostur er að tryggja vernd óbyggðra víðerna á miðhálendinu fyrir stórfelldum framkvæmdum eins og hagnýtingu vindorku enda er miðhálendi Íslands eitt af síðustu svæðunum í Evrópu af þessari stærðargráðu sem er tiltölulega óraskað.

Í fimmta lagi er um að ræða svæði á B-hluta náttúruminjaskrár eða svokallaðri framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Á þennan hluta náttúruminjaskrár eru skilgreind þau svæði landsins sem samþykkt hafa verið hér á þinginu með sérstakri þingsályktun að skuli friðlýst. Slík tillaga liggur hins vegar ekki fyrir enn sem komið er.

Í sjötta lagi er um að ræða brunn- og grannsvæði vatnsverndar og í sjöunda lagi er í flokki 1 að finna friðlýstar menningarminjar.

Hæstv. forseti Eins og ég hef komið inn á fyrr í máli mínu þá er í tillögunni sem hér liggur fyrir mælt fyrir um að stefna ríkisins verði skýr varðandi þau svæði sem ég hef farið yfir að ekki verði undir nokkrum kringumstæðum heimilt að reisa vindorkuver á slíkum stöðum. Í flokki 2 í tillögunni er hins vegar að finna landsvæði sem almennt geta talist viðkvæm með tilliti til hagnýtingar vindorku, en þar sem slík uppbygging getur þó komið til greina samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Allir fyrirhugaðir virkjunarkostir sem falla innan svæða í þessum flokki þurfa samkvæmt frumvarpinu að fara til skoðunar og mats verkefnisstjórnar rammaáætlunar á grundvelli meginreglna og viðmiða sem fram koma í tillögunni. Þessir flokkar eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er um að ræða svæði sem eru innan 10 km fjarlægðar frá friðlýstu svæði samkvæmt A-hluta náttúruminjaskrár eða svæði sem eru á B-hluta náttúruminjaskrár í flokki 1. Mjög mismunandi er hvaða áhrif virkjunarkostir í vindorku kunna að hafa á svæði í þessum flokki eftir landfræðilegri afmörkun þeirra og almennu eða sértæku verndargildi svæðisins. Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður því að meta áhrif áformaðs virkjunarkosts á markmið og verndargildi svæðisins.

Í öðru lagi er um að ræða svæði á C-hluta náttúruminjaskrár, en undir þann flokk geta fallið lífverur, vistkerfi, jarðminjar, vatn eða landslag sem hafa verndargildi og ástæða getur verið til að vernda en eru hvorki friðlýst samkvæmt A-hluta náttúruminjaskrár né hafa verið tekin upp í framkvæmdaáætlun skrárinnar á B-hluta hennar. Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður því að meta út frá staðsetningu og fyrirkomulagi virkjunarkostsins hvort slík röskun innan svæðisins verði metin ásættanleg eða ekki eða hvort hægt sé að lágmarka slíka röskun þannig að hún verði talin ásættanleg.

Í þriðja lagi er um að ræða svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Undir þennan flokk svæða falla vistkerfi og jarðminjar sem geta verið mjög mismunandi eftir eðli þeirra og verndarþörf. Gera má ráð fyrir að viðkomandi vistkerfi eða jarðminjar verði fyrir einhverjum áhrifum af byggingu vindorkuvers, en að slík áhrif geti verið afar misjöfn. Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður samkvæmt tillögunni að meta þá röskun sem svæði í þessum flokki verður fyrir vegna fyrirhugaðra framkvæmda út frá verndarmarkmiðum 2. og 3. gr. laga um náttúruvernd, verndargildis og verndarþarfar svæðisins og hvort slík röskun verði talin ásættanleg, samanber 61. gr. laganna. Meðal þess sem lagt er til að sérstaklega verði horft til er að kolefnisríkum jarðvegi, svo sem í mýrlendi, sé ekki raskað.

Í fjórða lagi er um að ræða mikilvæg fuglasvæði samkvæmt greiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þessi svæði eru veigamikill áhrifaþáttur við mat á virkjunarkostum í vindorku. Við mat verkefnisstjórnar rammaáætlunar á virkjunarkosti á mikilvægu fuglasvæði skal hún leggja mat á áflugshættu, fælingarmátt, hindrun á meginfarleiðum og búsvæðamissi. Sérstaklega skal horft til fuglategunda með hátt eða mjög hátt verndargildi sem vitað er að geti stafað veruleg hætta af vindorkumannvirkjum. Dæmi um slíkt eru tilteknar tegundir ránfugla eins og ernir og fálkar.

Í fimmta lagi eru óbyggð víðerni utan marka miðhálendis Íslands. Eins og ég kom inn á áðan, þá gerir tillagan ráð fyrir að óbyggð víðerni innan marka miðhálendisins falli í flokk 1 og ekki verði heimilt að reisa slík mannvirki á þeim stöðum. Þrátt fyrir að það sé áfram stefna stjórnvalda að stór samfelld óbyggð víðerni verði einnig að finna utan marka miðhálendis Íslands þá er lagt til í tillögunni að óbyggð víðerni utan marka miðhálendisins falli í flokk 2 og skuli því sæta skoðun og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Í sjötta lagi er um að ræða svæði á náttúruverndaráætlunum 2004–2008 og 2009–2013. Báðar þessar þingsályktanir um náttúruverndaráætlun voru samþykktar í tíð eldri laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Mörg þeirra svæða sem eru á náttúruverndaráætlun hafa þegar verið friðlýst. Nokkur þessara svæða hafa hins vegar enn ekki verið friðlýst. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður sem nauðsynlegt er að skoða frekar við mat verkefnisstjórnar á virkjunarkostum í þessum flokki.

Hæstv. forseti Eins og ég hef komið inn fyrr í máli mínu þá er gert ráð fyrir því í tillögunni sem hér liggur fyrir að þau svæði sem ég hef talið upp í flokki 1 eða í flokki 2 séu þau svæði sem skipta meginmáli við ákvörðun um staðsetningu virkjunarkosta í vindorku að því er varðar lög um rammaáætlun. Í frumvarpi til breytinga á lögum um rammaáætlun og í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að þau svæði landsins sem ekki falli undir annan hvorn af þessum tveimur flokkum falli undir svæði í flokki 3. Liggi það fyrir að virkjunarkostur í vindorku falli undir þann flokk þá lýkur þar með ferli rammaáætlunar varðandi þá virkjunarkosti. Slíkir virkjunarkostir geta því farið í hefðbundið ferli hjá sveitarfélagi og öðrum aðilum samkvæmt almennum lögum, skipulagslegri meðferð, mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og þar fram eftir götunum.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni um frumvarp til breytinga á lögum um rammaáætlun þá liggur fyrir að ekki er komin mikil reynsla á uppbyggingu virkjunarkosta í vindorku hér á landi þó slík uppbygging hafi átt sér stað um langt skeið erlendis. Frumvarpið gerir því ráð fyrir endurskoðun á efni þeirra innan fjögurra ára með tilliti til reynslu af framkvæmdinni. Það sama gildir að sjálfsögðu um tillögu þessa til þingsályktunar verði hún samþykkt. Eðlilegt er að hún verði endurskoðuð samhliða lögunum sjálfum verði þau samþykkt. Mikilvægt er að við söfnum saman og nýtum okkur þá reynslu sem mun liggja fyrir í tengslum við frekari uppbyggingu þessa orkukosts og að hún verði nýtt innan þessa tiltölulega skamma tíma til að endurmeta og hugsanlega bæta þá aðferðafræði sem við viljum hafa við mat á virkjunarkostum í vindorku. Auk þess mun þekking okkar á náttúru og menningarminjum, ekki hvað síst landslags, aukast og ætti það að leiða til betri ákvarðana.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessarar tillögu og ég legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.