151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

umhverfismat framkvæmda og áætlana.

712. mál
[23:21]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég biðst forláts á því að trufla hv. Alþingi með örfáum orðum, en örfá verða þau svo sannarlega. Mig langaði eingöngu að koma hingað upp vegna þess að ég leiddi starfshóp sem vann að samningu þessa lagafrumvarps. Í honum sátu fulltrúar frá, skulum við segja, helstu hagsmunaaðilum sem að þessu koma og hópurinn vann mjög ítarlega vinnu, tók sér töluvert langan tíma í þetta, lengri en fyrirhugað var, en náði þó að skila því sem stefnt hefur verið að í býsna mörg ár, að ná þessum ólíku sjónarmiðum saman í eitt frumvarp. Þar sátu þau samtök sem fyrst og fremst huga að náttúruvernd við hlið fulltrúa Samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga o.fl. Þessum sjónarmiðum tókst að ná saman í þetta frumvarp sem ég persónulega tel að sé nokkuð framsækið og færir okkur nær því sem við þekkjum í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Mig langaði einfaldlega að þakka fyrir þá vinnu sem fram fór í þeim hópi og gera það hér í þingsal.