152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

framlög vegna barna á flótta.

[15:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var viðtal við sviðsstjóra hjá Rauða krossinum sem gagnrýndi að ríkið styrkti úkraínsk börn á flótta um talsvert hærri fjárhæð en flóttabörn frá öðrum ríkjum. Lengi hefur verið kallað eftir auknum fjárframlögum í þágu barna á flótta, enda um sérlega viðkvæman hóp að ræða sem þarf aðstoð hvort tveggja við aðlögun en ekki síður vegna áfallavinnu í kjölfar stríðsátaka og annarra hörmunga sem þau hafa upplifað. En, virðulegur forseti, eitt verður yfir alla að ganga eða hvað? Það vakti því undrun að hæstv. barnamálaráðherra skyldi birtast í fjölmiðlum og réttlæta þessa mismunun í stað þess að biðjast afsökunar á þessum mistökum. Mig langar til að minna ráðherrann á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem leggur skýrt bann við mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna, litarháttar eða trúarbragða. Ég sé engin rök fyrir því að greiða sveitarfélagi 2.000 kr. meira fyrir að sinna þjónustu við flóttabarn frá Úkraínu en við flóttabarn frá, segjum Afganistan. Ég hef ekki séð stjórnvöld bera fram nein haldbær rök fyrir þessu. Því spyr ég hæstv. barnamálaráðherra: Hver eru rökin fyrir því að greiða hærri fjárhæð með úkraínsku börnum en þeim börnum sem koma hingað og leita skjóls frá Afganistan eða Sýrlandi? Telur hæstv. ráðherra þessa ákvörðun standast jafnræðisreglu stjórnarskrár eða stendur til að leiðrétta greiðslurnar þannig að öll börn á flótta sem fá hér skjól njóti sömu réttinda?