152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

Breiðafjarðarferjan Baldur.

[15:45]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort við hér í þessum sal séum mestu sérfræðingarnir í að finna skip um allan heim. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það betur en ég að hafsvæði eru skilgreind með mismunandi hætti og ekki öll skip hafa heimildir til að sigla á hvaða hafsvæði sem er. Þannig gildir nú um Breiðafjörð sem og siglingarnar til Eyja að það er ekki hvaða skip sem er sem getur siglt þar. Mér er sagt af okkar helstu sérfræðingum, sem hafa tengslanet úti um allan heim, að þetta skip hafi ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit sem hefði auðvitað verið miklu þægilegri lausn fyrir okkur, bæði ódýrari og tímabundin. En það leysir okkur ekki undan því að til langs tíma þurfum við að smíða nýtt skip vegna þeirra orkuskipta sem við viljum fara í til að ná fram loftslagsmarkmiðum okkar, að sigla á nýorku yfir Breiðafjörðinn í framtíðinni.