152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

geðheilbrigðismál og endurskoðun lögræðislaga.

[15:49]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég vil koma hérna í svipuðum erindagjörðum og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Mig langar að spyrja af hverju hann hafi ekki óskað eftir tilnefningum í sérstaka þingmannanefnd vegna heildarendurskoðunar lögræðislaga vegna þessara skýrslna sem hafa verið að koma út. Annars vegar er það skýrsla Ríkisendurskoðunar sem sýnir að geðheilbrigðisþjónusta á landinu er ekki nærri því nógu góð. Henni er ekki fylgt eftir eins og ætti að vera gert og þetta er bara mjög alvarlegt mál sem virðist ekki tekið eins alvarlega og það er í raun og veru. Hins vegar er það OPCAT-skýrsla hérna um bráðageðdeild 32C. Þar er farið yfir þær hræðilegu staðreyndir að það sé ekki lagasetning, lagaheimild fyrir þeim þvingunum sem verið er að beita þar. Svo er ýmist talað um í stefnu stjórnvalda að afnema eða útiloka þvingun í meðferð í framtíðarstefnu en það er einnig verið að reyna að bæta í með lagasetningu um þvinganir.