152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera athugasemd við það sem hér er haldið fram, að atvinnutryggingarnar hafi alltaf fylgt bótum almannatrygginga. Það er ekki svo. Við verðum að hafa í huga, þegar við erum að tala um atvinnutryggingar, að þetta er hluti af tryggingakerfi, vinnumarkaðstengdum réttindum sem eru fullfjármögnuð af atvinnutryggingagjaldinu. Það er allt of algengt að við séum að ræða hér um hækkun á réttindum án þess að við ræðum um nauðsynlega fjármögnun þess. Það sem myndi gerast ef við myndum hækka atvinnutryggingar er að við ættum með réttu að hækka atvinnutryggingagjaldið. Ef við ekki gerum það myndum við þurfa að klípa af almenna tryggingagjaldinu til að fjármagna atvinnutryggingasjóðinn. Hann hefur reyndar notið þess að vera í skjóli ríkissjóðs og í fangi ríkissjóðs undanfarin ár þar sem safnast hefur upp tugmilljarða halli á sjóðnum. Fyrir nokkrum árum óskuðu aðilar vinnumarkaðarins eftir því að fá að taka allan þennan sjóð yfir og hefðu þá sjálfir setið uppi með tugmilljarða hallann. (Forseti hringir.) Ég held að margir séu fegnir því að það hafi ekki gerst. En ég vísa bara aftur í atvinnustigið (Forseti hringir.) sem svar við spurningunni.