152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega ekki rétt að alhæfa með þessum hætti að kaupmáttur örorkulífeyrisþega muni ekki batna við þessa hækkun. Að sjálfsögðu verður hann betri með hækkuninni. Það er ekki hægt að deila um það. Kannski mætti frekar spyrja: Halda þær hækkanir sem áttu sér stað um áramótin, upp á rúm 5%, og síðan þessi hækkun því til viðbótar, í við verðlag? Til að svara því þurfum við að skoða stöðu ólíkra hópa. Ég rakti það hér áðan að verðbólga án húsnæðis var 5,3% í apríl og 4,6% í mars. Þegar við horfum á þær hækkanir sem hafa orðið frá áramótum, og verða aftur með þessu, þá myndi ég halda, í ljósi þessara talna, að það sé alveg ótvírætt að við erum að auka kaupmátt þeirra sem eru ekki að eiga við þá undirliði vísitölunnar sem mælast vegna húsnæðisverðsþróunar. Það ætti að vera alveg óumdeilanlegt. Það er voðalega erfitt að eiga umræðu ef við getum ekki orðið sammála um að nota mældar stærðir sem grundvöll umræðunnar. Ég ber hins vegar fulla virðingu fyrir því að sumum finnst ekki nóg að gert og við vildum auðvitað gjarnan geta gert meira. Við erum að taka 10% af öllum tekjum ríkissjóðs í þennan málaflokk, 100 milljarða á ári til öryrkja, til að standa með þeim sem ekki geta bjargað sér sjálfir, hafa skerta starfsgetu, hafa orðið fyrir áföllum, orðið fyrir slysum, eru veikir, glíma við líkamleg örkuml eða andleg veikindi o.s.frv. Þetta er ofboðslega fjölbreyttur hópur og mér finnst allt of algengt að því sé slegið fram að allur hópurinn búi við sömu aðstæður. Það er bara alls ekki þannig. Ég hvet alla sem hafa raunverulega áhuga á því að kynna sér stöðu þeirra sem treysta á bætur almannatrygginga til að fara inn á tr.is og slá ólíkar forsendur inn í reiknivélina (Forseti hringir.) og sjá þá hversu misjöfn staða fólks getur verið og hvernig kerfið kemur á móts við ójafna stöðu ólíkra einstaklinga.