152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef einmitt verið að ræða það hér í dag að stóra breytingin sem við þurfum að ná fram er kerfisbreyting á þessu tryggingakerfi. Við höfum kannski ekki verið að ræða það hér heldur höfum við verið að ræða hugmyndir um að setja auka 100 milljarða í kerfið sem hv. þingmaður talar alltaf fyrir og hans flokkur. Ég er bara að halda því hér til haga að mér finnst það algjörlega óraunhæft og menn eiga ekki að skapa væntingar um að það sé auðvelt að gera. Að tala um að hækka skatta á tekjuhæsta fólkið í landinu og finna þar 100 milljarða er auðvitað bara út í bláinn, fullkomlega út í bláinn. Það er algerlega óraunhæft. Algerlega með öllu. Gott og vel. Ef menn vilja auka skatta á tekjuhærra fólk til að fjármagna einhverja hluta verða menn bara að gera sér grein fyrir því hverju það myndi skila upp í þær ofboðslegu hugmyndir sem verið er að kynna hér til sögunnar. Það myndi skila mjög takmörkuðu í samhengi við útgjaldavöxtinn sem verið er að tala fyrir. Ég leyfi mér að benda á að við búum í landi þar sem tekjujöfnuður er hvað mestur í heiminum, það sýna ítrekaðar mælingar. Þar fyrir utan er félagslegur hreyfanleiki líklega hvergi meiri í heiminum en einmitt á Íslandi. Þetta getum við séð ágætlega í lífshlaupinu á tekjusagan.is, hve gríðarlega mikill félagslegur hreyfanleiki mælist á Íslandi frá árinu 1991. Þó að ekki séu til raunhæfar samanburðartölur annars staðar frá þá hafa þær niðurstöður komið mjög á óvart.

Áfram heldur umræðan um það hvernig við getum gert betur. Ég segi að lykilaðgerðir í því séu að viðhalda krafti í efnahagslífinu, halda áfram verðmætasköpun, auka framleiðni til að ríkissjóður sé vel í stakk búinn til að standa með þeim sem á þurfa að halda. Og svo þurfa þessar umbætur á kerfinu að ná fram að ganga.