152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Ég harðneita því að ég hafi sagt að það ætti stórauka skatta á hátekjufólk og það ætti að borga einhverja 100 milljarða, það voru ekki mín orð. Ég benti á að það þarf ekki á persónuafslætti að halda. (Gripið fram í.) Það er ekki upp á 100 milljarða, langt í frá. Einstaklingur sem er með 3 milljónir í tekjur, hver er persónuafslátturinn hjá honum? Það er það lág upphæð að það skiptir viðkomandi engu máli, ekki nokkru máli. Ég er viss um að ef viðkomandi gæti gefið það eftir, til þess að einhver annar þyrfti ekki að standa í biðröð eftir mat, gæti sótt sér læknisþjónustu eða keypt sér lyf, myndi hann gera það. Ég myndi segja, í þessum ræðustól, með mín laun hér á þingi: Þó að persónuafsláttur hyrfi frá mér, og ef hægt væri að garantera að hann færi í að bæta kjör þeirra verst settu, myndi ég glaður gefa hann eftir. Það er nefnilega þetta sem er að. Við getum ekki alltaf verið að fullyrða að fólk þarna úti vilji ekki eitthvað. Fólk þarna úti vill og ætti að krefjast þess að enginn á Íslandi þurfi að búa við sárafátækt. Það er okkur til háborinnar skammar að láta fólk bíða í röð eftir mat, það á ekki að eiga sér stað. Það er alltaf talað um að við séum svo rík þjóð og það sé rosalega lítill ójöfnuður og annað. En það er hópur, hæstv. fjármálaráðherra hefur líka margoft sagt að það sé fámennur hópur, sem er í þessari stöðu. Hæstv. fjármálaráðherra kemur upp ár eftir ár og segir: Þetta er fámennur hópur sem er í þessari stöðu. En hann breytir því ekki. Af hverju ekki? Af hverju breytið þið ekki þessari afstöðu og farið í að taka þennan fámenna hóp út? Það er alveg á hreinu að við í stjórnarandstöðunni munum halda okkur við að gera það á einum sólarhring, að sjá til þess að þessi fátækasti hópur landsins verði dreginn upp úr sárafátækt og helst upp úr fátækt líka þannig að hann geti lifað mannsæmandi lífi.