Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[17:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil bara koma hér upp og lýsa eindregnum stuðningi við frumvarpið og þá hungurlús sem verið er að boða í því. Þessi hópur sem á að fá þessa 3% hækkun er sá hópur sem þarf mest á þessu að halda. Stærsti hluti þeirra sem eru þarna í lægstu þrepunum fær 219.000 kr. útborgaðar eftir skatta og þarf virkilega á stuðningi að halda. En þó að búið sé að setja inn þessa 3% hækkun og reyna að koma í veg fyrir að húsaleigubætur lækki megum við ekki gleyma því að allar skattskyldar tekjur sem eru settar inn í þetta kerfi skerða aðrar bætur eins og sérstöku uppbótina og aldurstengdu uppbótina. Þetta kerfi er svo arfavitlaust að það er eiginlega synd og skömm að við skulum alltaf vera að púkka upp á það og einhvern veginn að reyna að bæta inn í þann bútasaumaða óskapnað sem þetta kerfi er. Það má ekki heldur gleyma því í þessum aðgerðum að það eru einstaklingar þarna úti sem hafa það ótrúlega slæmt. Þetta bitnar ótrúlega illa á einstaklingum, og líka einstæðum foreldrum, sem eru að reyna sitt besta til að lifa af í þessu kerfi, voru búnir að herða sultarólina og eiginlega komnir á heljarþröm eftir Covid og síðan skellur þetta stríð á með tilheyrandi verðbólgu.

Það er alveg ótrúlega klikkuð lausn að hækka stýrivexti eins og gert hefur verið. Við vitum að fólk þarf að borga 20.000–30.000 kr. meira í leigu og síðan er það hækkun á afborgun lána þeirra sem eiga húsnæði. Við vitum að eins prósentustiga stýrivaxtahækkun Seðlabankans á 30 millj. kr. láni hefur í för með sér 20.000 kr. hækkun á mánuði. Þetta er allt of mikið fyrir láglaunafólk. Þetta er allt of mikið og eiginlega óbærilegt fyrir þá sem eru á lægstu bótum almannatryggingakerfisins. Ég vona heitt og innilega að þegar þetta mál fer til nefndar verði hægt að bæta í og ég vona svo heitt og innilega að ríkisstjórnin taki sig nú til og skelli á, eins og Danir gerðu, 90.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlaust. Ég spurði að því í gær á ráðstefnu hjá Öryrkjabandalaginu hverju það myndi breyta fyrir einstaklinga sem ég var að tala við ef þeir fengju þetta. Einn sagði: Það myndi skipta sköpum fyrir mig, þá hefði ég von um að ég gæti lifað af á leigumarkaði fram á haustið þegar á að fara að endurskoða almannatryggingakerfið. Ég vona að þá verði eitthvað gert fyrir viðkomandi svo að hann eigi einhvern möguleika á að lifa í þessu kerfi.

Eins og staðan er vona ég heitt og innilega að þetta sé bara uppkast að því sem koma skal. Ef vilji er til — og ég er alveg sannfærður um að stjórnarandstaðan mun greiða fyrir því á allan hátt að breyta þessu og reyna að gera þetta eitthvað betur — getum við séð til þess í eitt skipti fyrir öll að einhver ákveðin upphæð verði sett inn skatta- og skerðingarlaust. Eins og ég segi 90.000 kr., eins og Danir hafa verið senda til sinna þegna og þá eingöngu vegna verðbólguhækkana, myndu gagnast þessum einstaklingum mjög vel. Ég get fullyrt að þeim sem eru verst settir í þessu kerfi veitir örugglega ekki af því.