154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:43]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum að mínu viti kannski mikilvægasta málið sem hefur verið rætt hér síðan ég kom inn á þing 2021 og varðar uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu sem eru góðar og ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir skýra framsögu í málinu. Stóra málið í þessu er hins vegar fyrirkomulag uppgreiðslu. Hv. framsögumaður nefndi hér að þetta væri bara einn þáttur en þetta getur verið lokaþátturinn fyrir marga. Ég hef allan tímann eftir að nefndin fékk þetta mál til sín og eftir að við fórum að taka á móti gestum og fá umsagnir gert mér grein fyrir því að 95% reglan næði ekki utan um þann hóp sem við er að eiga. Við erum með hópa og það kemur í ljós þegar grannt er skoðað að tæplega 30% af hópnum eru með fasteignamat sem er hærra en brunabótamat. Þá veltir maður fyrir sér hvort 95% reglan nái utan um þann hóp. Við höfum fengið fregnir af ungu fólki sem fer hreinlega út úr þessu eignalaust. Í mínum huga getur það ekki gengið að við séum að leggja fram frumvarp sem gerir unga einstaklinga í Grindavík eignalausa. Mig langar að spyrja hv. framsögumann (Forseti hringir.) hvort það hafi komið til greina að skoða annars konar fyrirkomulag á uppgreiðslunni heldur en 95% regluna.

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmenn á ræðutímann.)