135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kostnaðarþátttaka ríkis vegna fæðinga.

391. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrirspurn um kostnaðarþátttöku ríkisins vegna fæðinga. Hún er í tveimur liðum.

1. Hvað má áætla að margir foreldrar hafi þurft að sækja fæðingarþjónustu út fyrir sitt sveitarfélag árið 2007?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að komið verði frekar til móts við kostnað foreldra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu út fyrir sitt sveitarfélag?

Hæstv. forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú þróun sem orðið hefur í mörgum byggðarkjörnum vítt og breitt um landið þar sem heilbrigðisstofnanir hafa lokað fæðingardeildum. Læknar telja að það þurfi að vera visst margar fæðingar á ári til að viðhalda sérhæfðri þekkingu hvað þessi mál varðar. Menn hafa því viljað vísa fæðingum til deilda þar sem fleiri fæðingar eru. Því hefur orðið æ algengara að fólk í bæjarfélögum vítt og breitt á landsbyggðinni hafi þurft, hálfum mánuði fyrir áætlaða fæðingu, að leita sem á fæðingardeild utan síns byggðarkjarna. Sé farið á fæðingardeild hálfum mánuði fyrir áætlaða fæðingu getur viðkomandi barnshafandi kona þurft að bíða fjarri heimahögum heilan mánuð eftir því að eignast barn sitt.

Ég er á því að þetta þurfi að nálgast út frá því að hér sé um jafnræðismál að ræða, þ.e. hvort viðkomandi foreldri búa á Siglufirði, þangað sem við hæstv. ráðherra eigum rætur okkar að rekja, eða á Akureyri eða í Reykjavík þar sem eru fæðingardeildir og viðkomandi geta dvalið heima hjá sér. Í dag geta fjölskyldur, a.m.k. barnshafandi kona, þurft að flytja að heiman allt að hálfum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag og að sjálfsögðu fylgir því umtalsverður kostnaður.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann vilji beita sér fyrir því að frekar verði komið til móts við kostnað foreldra sem þurfa fæðingarþjónustu fyrir utan sveitarfélag sitt. Hér er um að ræða ákveðin grunnmannréttindi sem hver fjölskylda á að hafa í jafnræði milli landsmanna. Það er einfaldlega ekki viðunandi, hæstv. forseti, í ljósi þess að fæðingardeildum fer sífellt fækkandi, að kostnaðarsamara sé fyrir fjölskyldur í ýmsum byggðakjörnum vítt og breitt um landið að fjölga mannkyninu en t.d. fjölskyldur á Akureyri og í Reykjavík.

Reyndar er greitt fyrir ferðakostnað en ekki fyrir annan kostnað sem fylgir dvöl fjarri heimahögum. Ég er fullviss um að hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að breyta þessum málum í ljósi þess að starfandi fæðingardeildum á landsbyggðinni (Forseti hringir.) fer mjög fækkandi og fjöldi fólks þarf að leita á náðir heilbrigðisstofnana fjarri heimahögum.