138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

framkvæmd fjárlaga.

[15:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég hef áhuga á því að heyra hæstv. fjármálaráðherra ræða stöðu og framkvæmd fjárlaga. Það sem ég hef áhyggjur af er sérstaklega tekjuhliðin. Þó að maður heyri af því að einstakar stofnanir eru þegar farnar að gera ráðstafanir til að eyða og ráðstafa óhöfnum fjárveitingum sem stafa frá árinu 2008 hef ég meiri áhyggjur af tekjuhlið fjárlaganna. Hæstv. ráðherra upplýsti m.a. í síðustu viku á Alþingi um áhyggjur sínar af minni veltu í samfélaginu og þar af leiðandi samdrætti þeirra tekna sem ætlað var í fjárlagagerðinni að innheimta með sköttum og þjónustugjöldum. Mig langar að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hvar þessi samdráttur kemur fram, í hvaða tekjustofnum þetta er og hvar helstu frávikin liggja.

Það væri mjög gott að heyra þetta því að þrátt fyrir yfirlýsingar um að í fjárlaganefnd verði farið mánaðarlega yfir framkvæmd og stöðu fjárlaga hefur hún ekki fengið eitt einasta plagg og skilirí um þetta enn þá, hvað svo sem veldur því. Þetta er ekki bara í minni veltu, heldur hefur maður líka heyrt af því að álagning á kolefnisgjald og forsendur fyrir henni séu að einhverju leyti brostnar. Þar var ráðgert að innheimta 2,6 milljarða kr. Nú liggur fyrir, eftir því sem ég heyri, að samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur gert um flugmál sé óheimilt að leggja umrætt gjald á millilandaflug. Mig langar að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvort hann geti staðfest þessar upplýsingar. Ef þetta reynist rétt leggst kolefnið eingöngu á innanlandsflugið og einhver hundruð milljóna króna gjaldtaka (Forseti hringir.) af þotueldsneyti vegna millilandaflugs fellur þá niður.