138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:20]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hissa á því að hv. þm. Eygló Harðardóttir skuli ekki hafa heyrt neitt af störfum þverpólitískrar nefndar sem hefur fengið það hlutverk að skoða skuldaúrræði stjórnvalda. Í þeirri nefnd sitja allir fulltrúar flokkanna, þar á meðal framsóknarmaðurinn Guðmundur Steingrímsson.

Ég vil hins vegar upplýsa hv. þingmann um störf þessarar nefndar og geta þess að hún skilaði í dag stuttri skýrslu um þau álitamál sem eru uppi varðandi núverandi úrræði stjórnvalda. Í nefndinni er bent á ýmsar breytingar sem þarf að gera á löggjöfinni, breytingar sem þarf jafnframt að gera á framkvæmd laganna og að lokum eru fjórar tillögur að úrbótum fyrir ráðherra. Þá erum við að tala um þrjá ráðherra, ráðherra efnahags- og viðskiptamála og dóms- og mannréttindamála auk félags- og tryggingamálaráðherra.

Þessar fjórar tillögur sem nefndin gerir eru í fyrsta lagi að það þarf að finna farveg fyrir óháða ráðgjöf til einstaklinga. Í öðru lagi þarf úrræði fyrir þá sem hafa takmarkaða greiðslugetu miðað við fasteign, í þriðja lagi þarf heildstæðara utanumhald um greiðsluaðlögunarferlið og í fjórða lagi þarf að kanna svigrúm fjármálafyrirtækja til að afskrifa eða færa niður lán.

Virðulegi forseti. Það er von mín að þessir ráðherrar taki þessa skýrslu til skoðunar og komi sem fyrst (Forseti hringir.) með lagfæringar á úrræðum stjórnvalda.