138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það sé rétt munað hjá mér að þegar þetta frumvarp var fyrst lagt fram voru þær spurningar sem við erum að velta fyrir okkur um afturvirkni ekki uppi á borðinu vegna þess að þá var frumvarpið lagt fram innan þeirra fresta sem um þær fyrningar eiga.

Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu er nauðsynlegt fyrir hv. allsherjarnefnd að fara rækilega yfir þessa þætti mála. Þær reglur sem réttilega gilda um þetta voru kannski barn síns tíma að því leyti til að við höfðum þá ekki fyrir framan okkur svo flókið umhverfi sem síðan hefur orðið kannski enn flóknara en löggjafinn sjálfur hafði hugmyndaflug til að átta sig á. Lagasetningar eru oft töluvert á eftir því sem er að gerast úti á hinum almenna markaði. Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. allsherjarnefnd að fara rækilega yfir málið en það eru atriði í málinu sem eru mjög til bóta.