139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða heimilanna.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg eðlilegt að hv. þingmaður taki upp þetta mál. Það tókst ágæt samvinna með öllum flokkum um skuldavanda heimilanna og farið var af stað með aðgerðir sem er verið að koma í gang þessa dagana og hafa ráðuneytin sem að þessu máli koma fylgst vel með framvindu mála. Þar mæðir mjög á Íbúðalánasjóði, umboðsmanni skuldara og bönkunum. Ég tel að gengið hafi ágætlega að koma þessum málum af stað í bönkunum.

Upp komu hnökrar að því er varðar Íbúðalánasjóðinn en verið er að vinda bráðan bug að því. Ég á von á því að frumvarp komi fram í þinginu í dag eða eftir helgi sem vonandi verður hægt að ganga fljótt frá en lagaheimild þarf til að fara 110% leiðina að því er varðar Íbúðalánasjóð og að því hefur verið unnið. Unnið hefur verið mjög hratt og vel hjá umboðsmanni skuldara. Ég held að ég muni það rétt að um 2000 umsóknir hafi borist og frá því að átakið byrjaði hafa verið afgreiddar um 500 umsóknir og málshraði hefur aukist verulega hjá embættinu. Markmið embættisins er að koma því þannig fyrir að 300–400 mál verði afgreidd í hverjum mánuði, sem er veruleg breyting frá því sem var. Ég hygg að þær aðgerðir sem flokkarnir á Alþingi fóru í hafi greitt verulega þar fyrir auk þess sem sett hefur verið verulegt fjármagn til þessa embættis til að hægt sé að vinna þar hraðar að málum en áður. Ég á von á því að þær áætlanir sem við settum fram um að greiðsluaðlögun gangi hratt fyrir sig og við mundum sjá fyrir endann á henni (Forseti hringir.) núna um mitt ár, standist þó að einhverjir hnökrar séu á málum að því er varðar Íbúðalánasjóð. Þörf er á lagabreytingu sem liggur væntanlega fyrir Alþingi.