139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er á ferðinni merkilegt frumvarp. Þetta er bæði menningarmál og fullveldismál, mannréttindamál og velferðarmál — og það er kannski rétt að óska notendum táknmálsins til hamingju, fyrst af öllu með þennan árangur af töluverðri baráttu fyrir því að íslenska táknmálið verði viðurkennt. Við það tækifæri er ekki úr vegi að rifja upp þá stund hér í nóvember, hygg ég, frekar en í desember, 2003 þegar Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn frumvarp sitt um viðurkenningu á táknmálinu. Það var líka, ég held ég fari rétt með það, fyrsta ræðan sem flutt var á Alþingi Íslendinga á táknmáli. Þetta var nánast hátíðleg stund, þetta var merkilegur viðburður. Ég man ekkert hvað hún sagði en ég man að við hér í salnum, sem aldrei megum klappa, veifuðum höndunum í tilefni af þeim viðburði. Og nú er þetta gengið eftir að einhverju leyti, það eru að vísu átta ár, sem er auðvitað langur tími frá ákveðnu sjónarhorni, eins og Þráinn Bertelsson sagði, það er langur tími fram á við en það er stuttur tími um öxl, og í raun og veru ekki langur tími þegar um réttindamál af þessu tagi er að ræða. En nú reynir á, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði, í þessum efnum.

Áhugamenn um vöxt og viðgang íslenskunnar á löggjafarsviði hafa átt ágæta samleið með táknmálsnotendum í þessum efnum. Og einmitt á sama tíma og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti hér fyrstu ræðuna sína lá frammi þingsályktunartillaga frá okkur nokkrum, mér og þingmönnum sem nú eru reyndar farnir, en þó ekki veg allra vega, það eru þeir Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Sigurjón Þórðarson — það var einn úr hverjum þáverandi þingflokki og við fluttum saman frumvarp um réttarstöðu íslenskunnar. Og nú er það líka gengið upp og tók ekki nema átta ár. Fyrir það ber að þakka. Þá reynir líka á, þannig að endurómað sé úr ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, og nú þarf að standa sig í framtíðinni. Ég veit að það kemur ekki allt í einu í þessum efnum frekar en öðrum en ég fagna því að þetta er komið fram og orðin til svolítil áætlun um það hvernig áfram á að vinna að þessum málum.

Ég vil auk fagnaðarlátanna minnast á nokkur atriði, bæði til hróss og til frekari athugunar fyrir nefndina, hina háu menntamálanefnd, og ráðherrann og aðra sem á mig hlýða eða hafa veður af þessum umræðum hér. Það er í fyrsta lagi, eins og hér hefur verið minnst á, stjórnarskráin sjálf. Ég lít svo á að hún sé næsta skref í báðum þessum efnum, bæði með táknmálið og íslenskuna, og ætla ekki að hafa langt mál um það. Við vonumst til þess að hér komist annaðhvort á þing eða einhvers konar stjórnlaganefnd sem afgreiðir þau mál og hlýtur að íhuga þetta. Í öðru lagi vil ég svo nefna 2. mgr. 2. gr., sem ég tel eitt mikilvægasta ákvæðið í frumvarpinu, um að allir sem eru búsettir hér á landi skuli eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi, og þar eru boðuð sérlög sem verður mikilvægt og fróðlegt að fást við. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir nýbúa annars vegar og hins vegar útlendinga sem hér setjast að til einhverrar dvalar. Þarna reynir aftur á starfið í skólunum, í leikskólunum og í þeim móttökustofnunum sem við höfum komið á fót til að greiða nýbúum för til íslensks samfélags og láta gestum líða hér sæmilega því að við græðum á því, í jákvæðum skilningi þess orðs, að tekið sé vel á móti þeim og við höldum við þá sem mestri vináttu.

Í framhaldi af þessu vil ég líka segja, það er kannski gagnrýni eða athugasemd — ég hef líka rætt það við formann Íslenskrar málnefndar þegar hún var hér í miklu starfi, sú nefnd á mikið hrós skilið og ekki síst formaðurinn, Guðrún Kvaran. Og þá sagði hún: Ja, það er ekki allt hægt í einu, það verður eitthvað að bíða. Það er auðvitað rétt. En ég held að eitt af næstu skrefum okkar sé líka að íhuga að íslenska er ekki eina tungumálið á Íslandi og hefur aldrei verið. Í fyrsta lagi er náttúrlega táknmálið, sem ekki þarf að ræða frekar um, og er vel búið um í frumvarpinu.

Í öðru lagi ber okkur að minnast þess á stundum sem þessum að við höfum átt hér önnur mál. Ég ætla ekki að fara í írafárið og tala um keltneskuna, sem formæður okkar hjöluðu við ung börn sín, að vísu með litlum árangri á opinberan hátt en kannski hefur hún komið inn sögum og ljóðum — um það eru miklar kenningar sem ég veit að hæstv. ráðherrar, tveir hér við vinstri hönd mér, vita vel af og hafa lagt til. En latína og danska eru auðvitað þau mál sem við höfum haft hér nánast opinberar tungur, hvora sínum megin við siðskiptin. Og við megum ekki gleyma því í umbúnaði menningararfsins að svona er það, ekki gleyma þeim bókmenntum og þeim menningarverðmætum sem eru til á þessum tveimur tungum af hálfu Íslendinga og okkur hættir til að hafa í glatkistunni. — Ég ætti náttúrlega að fara hér með nokkrar ljóðlínur á latínu eftir helstu skáld á þeirri tungu, Magnús Ólafsson, Jón Vídalín o.fl., en ég hlífi hv. þm. Skúla Helgasyni við því þó að auðvitað mundu ráðherrarnir gleðjast við slíkan ljóðaflutning. Þetta var nú kannski meira með bros á vör.

Í þriðja lagi er það auðvitað enskan, hið mikla heimsmál, sem nú er að verða nokkurs konar annað mál okkar Íslendinga. Án þess að nokkur hafi ákveðið það er ekki einu sinni hægt að éta smjörva án þess að tilkynnt sé á ensku hvurslags fyrirbrigði það er. Fundið var að því fyrir nokkrum árum að á skipum Landhelgisgæslunnar stæði Coast Guard. Og maður spyr: Bíddu, eru það bara Englendingar sem sigla skipum sínum í landhelgi? Enskan er um allt samfélagið, frá eldhúsunum og út á miðin, sækir sífellt á. Þá er að minnast þess sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði hér, að það er líka okkur að kenna, hún kemur ekki bara með popplögunum og sjónvarpsmyndunum, sem við veljum frá Bandaríkjunum og Englandi umfram annað, heldur líka með tækni sem við nennum ekki eða tímum ekki að klæða í íslenskan búning. Það er kannski það sem við getum gert, og um það má reyndar lesa í ágætri greinargerð Íslenskrar málnefndar eftir hið mikla starf hennar hér í einn eða tvo vetur. Þar var farið um umdæmi íslensks máls og athugað hvernig staðan væri, og þá var hún mjög slök einmitt í tungutækni og tölvuhlutanum af samfélaginu.

Það þarf að skýra stöðu enskunnar, við hljótum að gera það í framhaldi af þessu, og ekki síður annarra grannmála og heimsmála sem okkur hættir til að víkja frá eða láta enskuna komast upp með … þannig að ég persónugeri nú tungumálið, og hef þó ekkert á móti enskri tungu, sérstaklega ekki forn-enskri tungu sem er mun skemmtilegri en nútímaenska. Þar á ég auðvitað við norrænu tungurnar, þær skandinavísku, dönsku, norsku, sænsku, en ekki síður það sem við höfum hér kallað þriðja málið, a.m.k. í skólakerfinu, þýsku, frönsku og spænsku — við þurfum að skýra stöðu þessara tungna sem er að mjög litlu leyti gert í löggjöf, og reyndar að reyna að halda þeim fram sem öðru og þriðja máli Íslendinga og öðru og þriðja samskiptamáli okkar við umheiminn.

Í fjórða lagi, og það hef ég minnst á áður, eru auðvitað tungur nýbúa og gesta okkar hér. Við þurfum líka að skýra stöðu þeirra og ákveða hvernig við viljum að þær séu notaðar og kenndar og lögð við þær rækt í skólakerfinu og í stjórnsýslunni. Það er hafið að ýmsu leyti. Menn vita t.d. í skólakerfinu, flestir, að besta leiðin til að börn sem ekki kunna íslensku læri hana og tileinki sér er sú að þau séu vel mælt og fái góða uppfræðslu á móðurmáli sínu. Í stjórnsýslunni höfum við líka, á hinum miklu tímum sem eru nú kannski liðnir, innflutningstímum vinnuafls, þannig að það sé orðað með bírókratískum hætti, tekið upp ýmiss konar leiðbeiningar en á engan veg skýrt það í almennri löggjöf til hvers nýbúar og gestir geta ætlast í þeim efnum, hvaða þjónustu þeir eiga rétt á að fá og hvað okkur, af menningarlegum og mannúðlegum ástæðum, hlýðir að gera í þessum efnum. Þetta er mikilvægt og þar fagna ég tillögu hv. þm. Skúla Helgasonar, um fulltrúa nýbúa í Íslenska málnefnd, og mæli með því að það mál verði athugað. Ég er ekki viss um að það sé kannski rétta lokalausnin en það er a.m.k. byrjunin á því að viðurkenna þann vanda.

Enn ætlaði ég að minnast á, þó stuttlega, greinina um Íslenska málnefnd, og ekki efnisinnihald hennar, sem menntamálanefnd íhugar auðvitað, heldur það að ákvæðin um Íslenska málnefnd skuli vera komin í önnur lög en í lög um Stofnun Árna Magnússonar sem fyrir nokkru var smíðuð hér úr fimm gömlum stofnunum, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar átti þessi grein ekki heima því að Íslensk málnefnd er auðvitað ekki hluti af ríkisstofnun heldur samstarfsvettvangur, vissulega á vegum stjórnvalda en skipaður alls staðar að úr samfélaginu. Því var andæft hér á þinginu að Íslensk málnefnd yrði tekin úr sérlögum og komið þarna fyrir í hornkróki. En hér er hún komin á góðan stað og ég held að það sé mjög sæmandi og fagna því.

Í því sambandi vil ég líka segja að eitt af því sem reynir á er fjáröflun til þessara hluta allra. Ég minni hæstv. menntamálaráðherra á að til er Málræktarsjóður sem ætlað var mikið hlutverk áður en hann lenti í klandri, má ég segja, hlutabréfaævintýrum einhverjum, sem voru nú ekki Icesave, öllu heldur deCode, án þess að ég þori að fara með það, og hefur verið hálflamaður síðan. Hann þyrfti endilega að komast á laggirnar, m.a. til að styðja við það starf sem nú er unnið.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Skúla Helgasyni út frá 9. gr., sem segir að mál það sem er notað í starfsemi ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra — það á væntanlega bæði við um íslensku og táknmál — skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Þetta er fögur grein. Það snertir nokkuð okkur sem hér erum á þessum vinnustað, á þinginu; vandað, einfalt og skýrt skal málið vera í stjórnsýslunni og ekki síður á löggjafarsamkomunni. Einhvern tímann var mér sagt að á þýska þinginu væri til siðs að ráða í sérstakt starf svokallaðan „venjulegan mann“ og að sá „venjulegi maður“, væntanlega valinn af handahófi, fengi ágæt laun og sæti síðan á þýska þinginu og læsi yfir frumvörp og önnur löggögn sem þangað bærust og síðan væri athugað hvort hann skildi þau eða ekki. [Hlátur í þingsal.] Þetta þótti nokkuð góður háttur nema að alltaf þurfti að skipta um þennan „venjulega mann“ á nokkurra ára fresti því að hann fór að skilja alla hluti og var því orðinn gagnslaus fyrir þau not sem af honum átti að hafa, sem var að tékka á því hvort almenningur í Þýskalandi skildi þau lög sem þýskir þingmenn voru að setja.

Þótt ég mæli kannski ekki með því að hingað verði ráðinn venjulegur maður, a.m.k. ekki meðan efnahagsástandið er eins og það er, held ég að við þurfum að hafa þetta dæmi fyrir framan okkur. Löggjöf okkar og önnur gögn í stjórnsýslunni eru sífellt að verða alþjóðlegri og að vissu leyti flóknari vegna þess að heimurinn er ósköp einfaldlega flókinn. Og það ber við, eins og hv. þm. Skúli Helgason sagði og tekið var undir hér áðan, að frumvörp og önnur þingleg gögn eru ekki á vönduðu, einföldu og skýru máli.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en gera það að tillögu minni hér í lokin að um þetta hefjist formlegt eða óformlegt samstarf Alþingis og ráðuneyta fyrst í stað, í framhaldi af umfjöllun um þetta merka mál hér á þinginu. Ég óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með að vera nú búin að flytja það mál fyrir okkur, og okkur sem við tökum til hamingju með að hafa fengið það í hús.