141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru 15 dagar eftir í störfum Alþingis. Hér kemur loksins fram frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Gerir hann sér yfirleitt vonir um að það verði samþykkt? Hvort mundi hann velja þetta frumvarp eða frumvarpið um stjórnarskrána ef velja þyrfti á milli? Það verður erfitt að gera hvort tveggja.

Síðan vildi ég spyrja hann um það sem kemur fram í greinargerð frá fjármálaráðuneytinu. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir í þessu sambandi á að mörkun ríkistekna í tiltekin verkefni eða til tiltekinna aðila, í þessu tilviki til sjóðs á vegum ráðherra, bindur hendur fjárveitingavaldsins og skerðir fjárstjórnarvald Alþingis sem kveðið er á um í stjórnarskránni.“

Það er sem sagt meiningin að fara að brjóta stjórnarskrána. Við erum að vanda okkur við það núna að gera breytingar á stjórnarskránni. Stendur ekki til að virða stjórnarskrána yfirleitt?