143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm Reykv. n. fyrir ágæta ræðu sem var þess eðlis að undir mjög margt sem þar kom fram má taka, nema helst það sem lýtur að Evrópumálum þar sem ég er eins og áður þeirrar skoðunar að hv. þingmaður sé á villigötum, en við getum rætt þau mál síðar.

Það voru tvö atriði sem ég vildi nefna sérstaklega í þessu stutta andsvari. Annars vegar vildi ég taka undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi mikilvægi NATO í sambandi við öryggismál í okkar heimshluta. Atburðir í Úkraínu eru að mínu mati til vitnis um það að þetta bandalag hefur enn þá gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna í heimshluta okkar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að byggja varnarmálastefnu okkar á þeim grunni og vera meðvituð um það að til þess að varðveita frið og frelsi í okkar heimshluta er óhjákvæmilegt að styðja og styrkja Atlantshafsbandalagið og eftir atvikum opna dyr fyrir nýjum ríkjum, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Ég tel mjög mikilvægt að það komi fram. Hv. þingmaður hefur lengi verið ötull talsmaður Atlantshafsbandalagsins og ég held að nýjustu atburðir renni styrkari stoðum undir þá stefnu sem við höfum byggt á í því sambandi.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna og vildi spyrja hv. þingmann um varðar atriði sem hann nefndi í ræðu sinni og snertir forseta Íslands. Hann nefndi að um samráð hefði verið að ræða í utanríkisráðherratíð hans við hæstv. forseta. Telur hv. þingmaður að utanríkisráðherra eða (Forseti hringir.) hið pólitíska vald hafi einhver tök á að leiðbeina forsetanum frekar en (Forseti hringir.) nú er varðandi stefnumörkun í utanríkismálum?