143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var bæði málið sjálft, þ.e. slitatillagan sem hér var lögð fram, og málsmeðferðin sem ég tel að hafi verið gjörsamlega úr öllum takti við það sem er skynsamlegt af hálfu Íslands. Það sem skiptir höfuðmáli er að ríkisstjórn Íslands hafði lýst yfir afstöðu, hún hafði lýst ferli, hún hafði sagt það algjörlega skýrt að það ætti að ræða málið og í kjölfar þess ætti þjóðin að fá að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um það (Gripið fram í.) hvort haldið yrði áfram. (Gripið fram í.) Það var bara þannig.

Af því að hv. þingmaður kallar hér fram í og er með einhverjar sérskoðanir (BÁ: Það stendur í stjórnarsáttmálanum.) þá bendi ég bara hv. þingmanni á að lesa það sem er í gadda slegið í stjórnarsáttmálanum og lesa yfirlýsingar fjögurra hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar, lesa yfirlýsingar formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar og eftir. Hvað sagði hann? (Forseti hringir.) Hvað taldi hann heppilegast? Getur hv. þingmaður svarað því? — Að það yrði kosið um framhaldið á fyrri hluta (Forseti hringir.) kjörtímabilsins.